Gunnar Ingi telur engil hafa vakað yfir sér þegar hann fór í sjóinn

Þann 24. október síðastliðinn ók nítján ára Ísfirðingurinn Gunnar Ingi Hákonarson út í sjó af Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði. Rúman hálftíma tók að ná honum upp úr sjónum í umfangsmiklum aðgerðum. Nú, aðeins tveimur mánuðum síðar, er ungi maðurinn á góðum batavegi. „Ég veit bara að ég lenti í slysi. Ég man ekki eftir neinu, man ekkert eftir að setjast upp í bíl eða neitt,“ segir Gunnar Ingi. Hann veit þó að hann var á leið niður í sjoppu til að kaupa sér nesti þar sem hann var á leið á rjúpu með afa sínum daginn eftir. Rætt var við Gunnar Inga og viðbragðsaðila sem komu að málinu í Kastljósi í kvöld. Það leið um hálftími frá því að Gunnar Ingi Hákonarson fór í sjóinn í Ísafirði þann 24. október þar til búið var að ná honum upp. Tilkynning um slysið barst samstundis og viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang skömmu síðar. Missti meðvitund og hafnaði í sjónum Skutulsfjarðarbraut er um þriggja kílómetra fjölfarinn vegur, með fjallið á aðra hönd og sjóinn á hina. Hún liggur á milli Eyrarinnar, elsta hluta Ísafjarðar þar sem meðal annars er að finna marga vinnustaði og þjónustu, íþróttahúsið og spítalann, og þeirra hverfa sem eru innar í Skutulsfirði. „Ég vinn sem blikksmiður og er síðan í handbolta utan vinnu, þannig að ég keyri Skutulsfjarðarbrautina á hverjum degi, oftar en einu sinni,“ segir Gunnar Ingi. Það hefur hann gert síðan hann fékk bílpróf fyrir tveimur árum síðan. Rétt um klukkan hálf tíu föstudagskvöldið 24. október ók Gunnar Ingi frá heimili sínu í Holtahverfi og eftir Skutulsfjarðarbraut. Það var milt veður, við frostmark og sjávarhiti um átta gráður. „Ég fæ einhverjar hjartatruflanir eða eitthvað, það er ekki vitað og við fáum líklegast aldrei að vita það, en missi meðvitund og keyri þá út í sjó. Það var bíll sem mætti mér. Ég er búinn að heyra í honum og hann segir að ég hafi legið með hausinn til hliðar og haldið í stýrið. Hann hélt þegar hann sá þetta að eitthvað væri að og svo fylgdist hann með bílnum keyra út í sjó.“ Gunnar Ingi hafði ekkert sérstaklega leitt hugann að nálægð Skutulsfjarðarbrautar við sjóinn fyrir slysið. „Mér var sagt að það er svolítið djúpt þarna, þetta var held ég sjö metra dýpi. Að það sé ekki vegrið allavega þar... ef bíll fer þarna ofan í þá er nánast ómögulegt að finna hann. Fáránlegt að það sé ekki vegrið.“ Tilkynning barst samstundis og viðbragð var mjög fljótt Lísbet Harðardóttir, sjúkraflutningamaður, segir að sá sem tilkynnti slysið hafi horft á bílinn fara í sjóinn. „Við fáum í rauninni útkallið um leið og slysið gerist og við áttum okkur á því að bíllinn er ekki búinn að vera lengi úti þegar útkallið kemur. Það fyrsta sem við áttum okkur á, sem við gerðum ekki ráð fyrir strax, er að við vissum ekki hvar bíllinn var,“ segir Lísbet. Bíllinn hafi ekki lengur verið á þeim stað sem hann fór í sjóinn. Það mátti engan tíma missa. Það þurfti að finna bílinn og Gunnar Inga í myrkrinu. Fólk sem átti leið hjá hóf strax aðgerðir, vegfarandi lýsti upp vettvanginn á vel útbúnum bíl og haft var upp á kafara á áttræðisaldri sem stökk til. Valþór Atli Birgisson, formaður Björgunarfélags Ísafjarðar, kom á vettvanginn um korter í tíu. Þá var einn björgunarsveitarmaður þegar kominn í sjóinn en sá býr skammt frá og var með sinn búnað með sér. „Svo líða nokkrar mínútur en þá sé ég í myrkrinu léttabát koma og svo skipið. Á skipinu erum við með tæplega 5 metra langan stjaka og þeir voru notaðir, sem er bara samanborið við að leita í snjóflóði. Svo líður bara mjög skammur tími og þá er gargað að hann sé fundinn,“ segir Valþór. Þá hafði stjakinn verið rekinn í bílinn í sjónum. „Mjög fljótlega, eða bara á sama tíma og það er kallað, þá kemur kafari á svæðið,“ bætir hann við. Var í sjónum í hálftíma en óljóst hve lengi í kafi Lísbet Harðardóttir segir áætlað að rúmur hálftími hafi liðið frá því að Gunnar Ingi fór í sjóinn þar til honum var náð upp. Ekki er vitað hve fljótt bíllinn fylltist af sjó og hve lengi Gunnar Ingi var á kafi. Ljóst er að kuldinn vann með honum. „Það eru mjög slæmar horfur ef fólk er yfir fimm mínútur í kafi, og það er í rauninni mjög ólíklegt að fólk muni lifa af yfir 30 mínútur í kafi. Nema það náttúrulega eru til tilvik þar sem fólk hefur lifað eftir lengri tíma í köldu vatni, þá hægist á efnaskiptum í heilanum og þú þolir lengri tíma. Þá er oft talað um að sex gráður sem ákveðið viðmið,“ segir Einar Freyr Ingvarsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir. Lísbet segir að Slökkvilið Ísafjarðarbæjar hafi nýlega óskað eftir endurmenntun fyrir sjúkraflutningamenn. „Við fengum tvo bráðamedica til okkar til þess að kenna okkur eiginlega akkúrat þetta. Við lukum þessari æfingu klukkan níu um kvöldið og útkallið kemur hálftíma seinna. Þrátt fyrir að við höfum bara endað við að ljúka kennslu í akkúrat þessum aðstæðum þá er samt ómetanlegt að geta sagt – er þetta ekki örugglega það sem við eigum að gera næst?“ Hún segir öryggistilfinningu í samfélaginu sitja eftir eftir aðgerðina í október. „Við erum fær um að standa í svona stórræðum og takast það. Þetta þarf ekki alltaf að enda illa og það eru bara miklar líkur á að því að það endi vel.“ Hefur sagt skilið við göngugrindina og farinn að hlaupa Gunnar Ingi var sendur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þar var hann lagður inn á gjörgæslu og honum haldið sofandi í nokkra daga. Á fimmta degi var létt á svæfingunni en það var ekki fyrr en á tíunda degi sem Gunnar Ingi talaði fyrst við sína nánustu. Hann man ekki eftir því þegar hann vaknaði fyrst. „Þegar ég man eftir mér þá var erfitt að tala og svoleiðis og ég bara vissi í raun og veru ekkert hvað ég var að gera, þótt það væri búið að segja mér það þá var ég bara ekki að átta mig á þessu,“ segir Gunnar Ingi. Hann lýsir því að hafa snemma verið beðinn um að standa upp, þá enn hálfsofandi. „Ég man ekkert eftir því. Síðan var ég látinn labba með göngugrind og var með göngugrind alltaf labbandi, síðan 11. nóvember sleppti ég göngugrind í fyrsta skipti. Ég er búinn að vera að labba án þess að vera með göngugrind síðan þá og er byrjaður að hlaupa núna, eitthvað smá, hér niðri á hlaupabretti.“ Var í góðu formi og heldur mikið upp á handboltann Gunnar Ingi var vel á sig kominn þegar slysið skeði. Aðeins fimm dögum fyrr hafði hann unnið sig upp um deild ásamt félögum sínum í þriðja flokki Harðar í handbolta. Gunnar Ingi spilar jafnan á línunni, hefur æft handbolta í um sex ár, æfir tvisvar á dag og fer í ræktina að eigin sögn. Við það bætast handboltaleikir um helgar. „Ég var með markmið að mæta á handboltaæfingu, þótt það væri bara til þess að senda, fyrir jól. Ég veit ekki hvort það takist. Síðan langar mig að byrja að spila handbolta í kringum páska en ég verð ekkert fúll ef það tekst ekki,“ segir Gunnar Ingi. Horfirðu einhvern veginn öðruvísi á allt í kringum þig eftir að hafa lent í þessu? „Já, átta mig á því hvað lífið getur verið fljótt að breytast, vil fara að gera eitthvað sem ég vil gera í lífinu, fara til útlanda og svoleiðis, bara njóta lífsins. Það getur verið greinilega mjög fljótt að breytast af því að það var enginn fyrirvari með þessu,“ segir Gunnar Ingi. Hann bætir því við að hann hafi aðeins fundið fyrir hjartslættinum í aðdraganda slyssins en það var ekkert sem hann taldi alvarlegt. „Læknarnir settu gangráð í mig og þeir sögðu að það væri bara öryggisatriði. Þau vissu ekkert hvort það þyrfti eða svoleiðis, en þetta er bara til öryggis. Þannig ég vona bara að það virki, að þetta gerist ekki aftur. Það er betra.“ Hugsar mest um að komast aftur í handboltann – og vinnuna Gunnar Ingi hefur verið á Grensás síðan hann útskrifaðist af hjartadeild 23. nóvember og verður þarf áfram í endurhæfingu eitthvað fram á næsta ár. „Ég er svolítið gleyminn núna. Ég gleymi oft hlutum, samræðum og svoleiðis þegar ég er að senda skilaboð og eitthvað. Síðan líður mér bara eins og ég sé að verða geðveikur á að vera fastur inni á sjúkrahúsi endalaust. Mig langar að komast í handboltann, ég hugsa mest út í það og vinnu,“ segir Gunnar Ingi. Hvað heldur þú að hafi skipt sköpum? „Örugglega einhver engill að vernda mig. Ég held það geti ekki annað verið.“