Ellefu ekvadorskir hermenn hafa hlotið 34 ára og átta mánaða fangelsisdóm fyrir að nema fjóra 11 til 15 ára drengi á brott, pynta þá og myrða. Málið hefur skekið Ekvador sem var eitt sinn með öruggustu löndum Suður-Ameríku. Drengirnir voru að spila fótbolta í hafnarborginni Guayaquil í Ekvador þegar þeir voru teknir höndum af ekvadorska flughernum í byrjun desembermánaðar síðasta árs. Á aðfangadagskvöld fundust lík drengjanna brennd, með skotsár á höfði og merki um pyntingar. Við réttarhöldin sýndu myndbandsupptökur hermann skjóta einn drengjanna af stuttu færi og annan hermann berja dreng með riffli sínum. Sextán hermenn voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins í byrjun árs. Ellefu hermenn voru dæmdir í 34 ára og átta mánaða fangelsi fyrir þvingað mannshvarf. Fimm aðrir, sem voru samvinnuþýðir á meðan rannsókn stóð, fengu 30 mánaða fangelsisdóma. Þetta er haft eftir ríkissaksóknara í frétt AFP. Eitt öruggasta land Suður-Ameríku liðin tíð Málið hefur skekið Ekvador og ýtt undir ásakanir mannréttindasamtaka um vaxandi ofbeldi af hálfu hers landsins í baráttu Daniel Noboa, forseta Ekvador, gegn glæpagengjum. Amnesty International kallaði ítrekað eftir því á meðan réttarhöldunum stóð að herinn hætti að „streitast á móti því að viðurkenna ábyrgð sína“. Í janúar baðst Gian Carlo Loffredo, varnarmálaráðherra landsins, opinberlega afsökunar á atvikinu. Ekvador var eitt sinn með öruggustu löndum Suður-Ameríku en tíðni ofbeldisglæpa í landinu hefur rokið upp undanfarin ár. Noboa, sem var kjörinn forseti árið 2023 og endurkjörinn í apríl síðastliðnum, hefur tekið harkalega stefnu gegn glæpagengjum, meðal annars með því að senda hermenn út á götur til að sinna eftirliti. Frá árinu 2024 hefur her Ekvador sinnt eftirliti í borginni Guayaquil, sem er orðin að mikilvægri miðstöð fyrir kókaínsmygl milli helstu framleiðslulandanna, Kólumbíu og Perú, og neytenda um allan heim.