Hækkanir á heitu vatni og rafmagni kyndi undir verðbólgu

Halla Gunnarsdóttir formaður VR segir hækkanir á hitaveitu langt umfram verðbólgu og að slíkt kyndi undir áframhaldandi aukningu hennar. Verðbólga mælist 4,5% í desember og hefur ekki verið meiri frá því í janúar. Flugfargjöld og hitaveita hækkuðu einna mest milli mánaða. Almenn hækkun á hitaveitu milli mánaða er 9,2% samkvæmt Hagstofu Íslands. Þá nefnir Halla sem dæmi breytingar á verðskrá hjá Veitum, sem hækkuðu verð 1. desember. Sú breyting sé sú þriðja á árinu. „Þetta er í rauninni aukin gjaldtaka á tímum þar sem við undirrituðum kjarasamninga þar sem gert var ráð fyrir að hið opinbera myndi halda aftur af sér í gjaldskrárhækkunum,“ segir Halla sem telur þetta dæmi um að verðbólga hér á landi sé heimatilbúinn vandi. Leita að vatni og stækka flutningskerfi Í tilkynningu á vef Veitna segir að ört stækkandi samfélag kalli á miklar nýframkvæmdir og viðhald í hitaveitu til að mæta aukinni orkuþörf. Óhjákvæmilegt sé að gera breytingar á gjaldskrá hitaveitu til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og tryggja að íbúar og fyrirtæki á öllu veitusvæðinu fái heitt vatn með öruggum hætti í dag og til framtíðar. Greiða þurfi fyrir leit að nýju vatni og stækkun flutningskerfisins vegna nýrra hverfa. Því sé nauðsynlegt að hækka verð. „Gert er ráð fyrir þúsundum nýrra íbúða á okkar þjónustusvæði sem kallar á stækkun flutningskerfisins, öflugt viðhald og markvissa jarðhitaleit til að tryggja örugga afhendingu á heitu vatni til íbúa og fyrirtækja. Því er nauðsynlegt að gera þessa verðskrárbreytingu núna til þess að mæta þessum framkvæmdum og fjárfestingum svo öll fái notið þessara lífsgæða,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, í tilkynningunni. Telur að borga ætti framkvæmdir með arði Halla telur rökstuðning Veitna fyrir hækkunum undarlegan þar sem fyrirtækið greiddi eigendum sínum arð. Einnig sé hægt að líta á verðhækkanirnar sem dulbúna skattlagningu. „Þá má spyrja ef það þarf að ráðast í nýframkvæmdir eða einhverjar breytingar er ekki eðlilegra að það komi af þeim gróða sem þau hafa af okkur öllum nú þegar frekar en að það sé verið að hækka gjöldin á okkur öll sem hefur áhrif á verðbólguna,“ segir hún. „Vegna þess að við greiðum heita vatnið okkar ákveðnu verði. Veitur greiða síðan Reykjavíkurborg, Akranesi og Borgarbyggð arð og hækka síðan gjaldskrárnar á okkur,“ segir Halla.