Bubbi hvergi nærri hættur að halda Þorláksmessutónleika eftir 40 ár

Bubbi Morthens hefur haldið tónleika á Þorláksmessu í 40 ár og segist alls ekki hættur þrátt fyrir að verða sjötugur á næsta ári. Við hittum hann í Hörpu og ræddum um tónleikana, samfélagið, pólitíkina sem Bubba leiðist og samfélagsmiðlana sem hann ætlar að hætta á á næsta ári. Tónlistarmaðurinn segist stefna á að halda Þorláksmessutónleika í 20 ár í viðbót. „Ég ætla að vera níræður hérna á sviðinu í Hörpu. Það er gott að hafa markmið.“ Tónleikarnir hafa mikið gildi fyrir marga. „Fólk sem að ég sá fyrst á Borginni, og hafa komið ár eftir ár, nú eru þau afi og amma og koma með barnabörn og voru að koma með börnin sín. Þetta er alveg magnað og alltaf jafn gaman fyrir mig, mér finnst þetta vera alveg ótrúlega skemmtilegt og svo skemmir ekki fyrir að það er ekki eitt jólalag á þessum tónleikum!“