Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti á blaðamannafundi í kvöld framleiðslu tveggja nýrra herskipa. Skipin eru af nýrri tegund sem kennd er við forsetann eða svokallaðan Trump-flokk (e. Trump class). Hann segir Bandaríkin smíða tvö herskip af þessari gerð en að markmiðið sé að ríkið eignist alls tuttugu og fimm slík. Á blaðamannafundinum ræddi forsetinn einnig aðgerðir ríkisins er snúa að Venesúela og Grænlandi. Trump segir að allri olíu, sem var um borð í olíuflutningaskipi sem var á leið til Venesúela þegar Bandaríkin lögðu hald á það um helgina, verði haldið eftir. Flutningaskipið var með farm upp á 1,9 milljónir olíutunna. „Við höldum henni. Við höldum skipunum líka,“ segir Trump. Hann bætti því við að hann hefði átt samtöl við bandarísk olíufyrirtæki um áhrif þess að í Venesúela taki við ríkisstjórn sem ekki er leidd af Nicolás Maduro, forseta Venesúela. Þá ítrekaði Trump þá afstöðu sína að Bandaríkin verði að eignast Grænland vegna þjóðaröryggis, en Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, gagnrýndi í dag skipun sérstakan erindreka Bandaríkjanna í málefnum Grænlands. Það er Donald Trump hjartans mál að framleiðsla Trump-herskipanna gangi sem hraðast. Hann segist funda með verktökum í Flórída í næstu viku um leiðir til að flýta fyrir framleiðslu þeirra. Það komi til greina að setja álögur á fyrirtækin sem „standa sig ekki nægilega vel“. Forsetinn sagði í kvöld að skipin yrðu hönnuð með gervigreindareiginleika, en vék ekki nánar að því með hvaða hætti. John Phelan, yfirmaður Bandaríkjaflota, segir að skipin verði búin kjarnorkueldflaugum sem skotið er frá hafi. „Þetta er aðeins einn hluti gyllta flota forsetans sem við munum smíða,“ segir Phelan.