Reynt að stilla til friðar eftir átök í Aleppó

Stjórnarher Sýrlands og Lýðræðissveitir Sýrlands (SDF), herafli kúrdísku stjórnarinnar á sjálfsstjórnarsvæðinu Rojava í norðurhluta landsins, sammældust um að reyna að halda friðinn eftir að átök brutust út milli hópanna í borginni Aleppó á mánudag. Að minnsta kosti tveir almennir borgarar voru drepnir og fleiri særðust. Sýrlenski ríkisfjölmiðillinn SANA greindi frá því fyrr um daginn að hermenn SDF hefðu gert árás á öryggissveitir og hermenn í hverfunum Maqsoud og Ashrafiyah í Aleppó. Talsmenn SDF höfnuðu þessu og sögðu sýrlenska stjórnarliða hafa gert árásina. SANA hafði síðar eftir varnarmálaráðuneytinu að hernum hefði verið skipað að hætta að skjóta á aðstöður SDF. SDF tilkynnti í kjölfarið að skipanir hefðu verið gefnar að svara ekki árásum stjórnarliða. Átökin brutust út nokkrum klukkustundum eftir að tyrkneski utanríkisráðherrann Hakan Fidan kom í heimsókn til Damaskus og lét þau orð falla að SDF virtist ekki ætla sér að heiðra samkomulag um að sameinast sýrlenska stjórnarhernum fyrir árslok. Ríkisstjórn Tyrklands lítur á SDF, sem tengist Verkalýðsflokki Kúrda (PKK), sem hryðjuverkasamtök og hefur hótað hernaðarinngripi ef samtökin standa ekki við samkomulagið. SDF gerði samkomulag við Ahmed al-Sharaa Sýrlandsforseta um að sameinast stjórn hans í mars. Seint hefur gengið að framkvæma samkomulagið og töluverð óvissa hefur verið um ýmis atriði þess. Sér í lagi hefur verið vafamál hvort Lýðræðissveitirnar fái áfram að vera til sem eining innan nýja sýrlenska hersins eða hvort þær þurfi alfarið að renna inn í heildina. Tyrkir eru mjög mótfallnir því að SDF verði áfram skilgreind sem eining innan hersins.