Ríkisstjórn Ísraels samþykkti á mánudaginn áætlun um að leggja niður útvarpsstöðina Galei Tzahal (GLZ), sem rekin er af ísraelska hernum. Stjórnin gagnrýndi útvarpsstöðina fyrir að útvarpa „umdeildu efni“ sem hún sagði ekki samræmast gildum hersins. GLZ var stofnuð árið 1950 og er þriðja vinsælasta útvarpsstöð í Ísrael. Markaðshlutdeild hennar í Ísrael nemur tæpum 18 prósentum. Þótt GLZ sé rekið af Ísraelsher starfar útvarpsstöðin nokkuð sjálfstætt og hefur stundum birt efni þar sem ákvarðanir ísraelskra stjórnvalda eru gagnrýndar. Israel Katz varnarmálaráðherra gagnrýndi útvarpsstöðina í rökstuðningi sínum fyrir því að leggja hana niður: „Síðastliðin tvö ár, frá upphafi stríðsins, hafa margir hermenn og borgarar, þar á meðal syrgjandi fjölskyldur, kvartað yfir því að stöðin endurspegli þau ekki og jafnvel að hún grafi undan hernaðinum og baráttuviljanum,“ sagði Katz. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra hvatti ráðherra sína til að samþykkja tillögu Katz um að leggja GLZ niður. Hann sagði að aðeins „Norður-Kórea og kannski nokkur önnur lönd“ starfræktu útvarpsstöðvar undir stjórn hersins. „Og við viljum sannarlega ekki líkjast þeim.“ Stjórnarandstæðingar á þingi gagnrýndu fyrirætlanirnar. „Þeir geta ekki stýrt veruleikanum, svo þeir reyna að stjórna hugum fólks,“ sagði stjórnarandstöðuleiðtoginn Yair Lapid. „Þeir láta ekki staðar numið. Hvar sem finnst sannleikur sem er óþægilegur fyrir ríkisstjórnina reyna þeir að útrýma honum.“ Tal Lev-Ram, útvarpsstjóri GLZ, ætlar að kæra ákvörðun ríkisstjórnarinnar til hæstaréttar. Skrifstofa Gali Baharav-Miara ríkissaksóknara segir að þingið verði að kjósa um lokun útvarpsstöðvarinnar til að hún taki gildi.