Viðskiptaráð Bretlands (BCC) vill að bresk stjórnvöld beiti sér fyrir því að gerður verði yfirgripsmeiri verslunarsamningur við Evrópusambandið. „Eftir fjárlög sem ekki skiluðu marktækum hagvexti eða stuðningi við verslun er endurstilling við ESB núna nauðsynleg stefna, ekki pólitískt val,“ sagði Steve Lynch, framkvæmdastjóri milliríkjaverslunar hjá BCC. „Verslun er fljótlegasta leiðin að hagvexti en fyrirtæki segja okkur að það sé að verða erfiðara, ekki auðveldara, að selja á stærsta markaðinum okkar.“ Í könnun sem BCC birti á mánudag kom fram að 54% breskra útflutningsaðila telja að verslunarsamningur sem Bretland gerði við ESB árið 2020 hafi ekki hjálpað þeim að auka sölur sínar. Þá sögðust 96% telja að það væri orðið erfiðara fremur en auðveldara að stunda verslun við ESB. „Endurstilling þessa árs var kynnt sem vatnaskil og sigrar eins og endurinnganga í Erasmus+ hafa hjálpað, en fyrirtæki þurfa miklu meira,“ sagði Lynch. „[...] Fyrirtæki vilja ekki framtíð með ESB þar sem þau þurfa stöðugt að fóta sig vegna illdeilna og lenda ítrekað í kreppum. Þau vilja þroskað, stöðugt samband sem leggur grundvöll að verslun, fjárfestingu og öryggi.“ BCC hefur sent skýrslu sína um „endurstillingu“ á samskiptum Bretlands og ESB til ríkisstjórnar Keirs Starmer. Í skýrslunni leggur ráðið fram 25 tillögur sem það áætlar að myndu bæta verslunarsamband markaðanna. BCC leggur áherslu á að bresk stjórnvöld komi fimm tillögum til framkvæmdar árið 2026. Ráðið leggur til að Bretland geri samning um hollustuhætti og heilbrigði svo hægt sé að losna við heilbrigðisvottorð á útflutningsvörur, tengi viðskiptakerfi Bretlands og ESB með losunarheimildir til þess að breskar vörur verði undanþegnar aðlögunarkerfi við landamæri ESB vegna kolefnis, geri sameiginlega áætlun um dvalarleyfi vegna vinnudvalar ungs fólks, tryggi þátttöku Bretlands í öryggis- og aðgerðaáætlun ESB (SAFE) og efli samstarf við lagningu virðisaukaskatts og í tollamálum til að draga úr verslunarkostnaði.