„Lesendur tóku mér opnum örmum og maður getur verið þakklátur fyrir það“

Nýjasta skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar ber titilinn Kvöldsónatan og segir frá því hvað þarf að leggja á sig og hverju þarf að fórna til að ná langt á sínum vettvangi. „Það er flétta í henni. Það er nú þannig að það eru nokkrir hlutir sem mér þykir þurfa til að halda utan um sögu, það er strúktúr og bygging.“ „Svo þarf eitthvað sem knýr fólk til að fletta, einhvers konar eftirvænting og plottið kemur þar við sögu,“ segir Ólafur því bókinni hefur verið lýst sem fléttukenndri og „plottaðri“. „Svo þarf fólk að hafa einhvern áhuga á persónunum til að vilja kynnast þeim betur. Svo hjálpar nú ef stíllinn er þannig að fólk seyðist eitthvað að honum.“ Egill Helgason ræddi við Ólaf Jóhann í Kiljunni. Sagan hefst árið 1949 þegar ungur drengur með mislinga stendur úti í glugga og fylgist með föður sínum og öðrum flytja píanó inn í húsið handan götunnar. „Næsti kafli hefst svo í nútíðinni þegar hann kemur sem gamall karl til Íslands eftir langa fjarveru og þarf að gera upp ýmis mál við fjölskyldu sína.“ Hann hafði lært að spila á píanó af konunni sem flutti í húsið handan götunnar og komst ansi langt. Sjálfur segist Ólafur ekki vera neinn sérfræðingur um tónlist þó svo að bókin fjalli að miklu leyti um hvernig það sé að helga sig tónlistinni. Hann segist hafa vandað mjög til verka. „Ég held að þú þurfir ekki að vera sérfræðingur í tónlist til að lesa bókina. Þegar maður býr til karaktera verður maður að vera trúverðugur. Þannig að þegar fólk sem veit meira en maður sjálfur, eins og píanóleikarar, trúi því sem þarna er sagt og fussi ekki og sveii og hugsi hvaða vitleysa er þetta.“ Það sé ákveðin spurning sem vakti fyrir honum í gegnum skrifin, spurning sem hann hafi velt fyrir sér frá því að hann var ungur drengur að læra eðlisfræði og síðar í viðskiptum og seinna í listinni líka: „Hvað þarftu að leggja á þig til að komast alla leið, ef þú hefur hæfileikana? Hverju þarftu að fórna og hvað getur staðið í vegi fyrir því að þú komist á tindinn?“ Hann segir að oftast standi maður sjálfur í vegi fyrir sér. Það sé helsta glíman í þessari bók. „Hann fær hálfpartinn óbeit af sjálfum sér og svo kemur svona fram af hverju það er.“ Fékk ráð hjá Víkingi Heiðari Þegar Ólafur fékk hugmyndina að bókinni, að skrifa um eins konar píanóhvíslara sem hjálpar öðrum píanóleikurum að komast til manns, ákvað hann að hringja í Víking Heiðar Ólafsson sem var þá staddur einhvers staðar á Arabíuskaga til að ráðfæra sig. Hann hafi viðrað hugmyndir sínar við píanóleikarann og spurt hvort þær gengju upp. „Ég fékk mjög góðar ráðleggingar hjá honum.“ „Hann var eini úr kunningjahópi pabba sem hún vildi lítið hafa á heimilinu“ Reykjavíkurhluti sögunnar gerist á æskuslóðum Ólafs, við tjörnina við Suðurgötu. Þessar söguslóðir birtast gjarnan í bókum Ólafs en sjálfur var hann alinn upp á miklu skáldaheimili sem hafði mótandi áhrif á hann. Faðir hans var rithöfundurinn Ólafur Jóhann Sigurðsson og voru helstu skáld þjóðarinnar tíðir gestir á heimilinu. „Þetta var á þessum tíma þegar menn komu saman á kvöldin í staðinn fyrir að horfa á sjónvarp og fengu sér kaffi. Svo var líka oft komið í miðdegiskaffi.“ „Það voru allir rithöfundar þjóðarinnar þarna en fyrir mér sem strák þá voru þetta bara fjölskylduvinir.“ Þarna hafi verið menn á borð við Snorra Hjartarson, Hannes Pétursson, Jón úr Vör og Jón Óskar. Halldór Kiljan Laxness hafi einnig verið tíður gestur áður en Ólafur fæddist þar sem faðir hans prófarkalas og ritstýrði verkum eftir hann. „Það voru ekki til ritstjórar þá. Það var verk vina og kunningja að editera fyrir hvern annan.“ Steinn Steinarr hafi einnig verið félagi föður hans en móður Ólafs var ekkert sérlega vel við hann. „Hann var eini úr kunningjahópi pabba fyrir brúðkaupið sem hún vildi lítið hafa á heimilinu.“ „Hann gekk á milli vinanna og talaði illa um þann sem hann kom frá. Enda kallaði Þórbergur hann sérfræðing í illmælgi, en hann var helvíti gott skáld.“ Foreldrar hans eignuðust til að mynda málverk af Steini eftir Nínu Tryggvadóttur en vegna þess að móðir Ólafs vildi ekki hafa hana frammi við fékk hún að vera inni hjá Ólafi sem á myndina enn þann dag í dag. „Mér finnst þetta ekki hafa verið 40 ár“ Ólafur fagnar 40 ára útgáfuafmæli á næsta ári. „Ég byrja að skrifa sem unglingur og ég held að ég hafi verið 16 ára þegar ég birti fyrst í Tímariti Máls og menningar kveðskap. Þá var Þorleifur Hauksson ritstjóri.“ Árið 1986 gaf hann út smásagnasafnið Níu lyklar og segir að á þeim tíma hafi verið mjög skrítið að gefa út slík verk. „En Ólafur Ragnarsson heitinn var nógu galinn útgefandi til að gera það.“ „Lesendur tóku mér opnum örmum og maður getur verið þakklátur fyrir það. Mér finnst þetta ekki vera 40 ár.“ Kvöldsónatan er nýjasta skáldsaga Ólafs Jóhanns en hann fagnar 40 ára útgáfuafmæli á næsta ári. Æskuslóðirnar eru honum gjarnan hugleiknar en á heimili hans voru heimagangar mörg þekktustu skáld þjóðarinnar. Rætt var við Ólaf Jóhann Ólafsson í Kiljunni á RÚV. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.