Uppsögnin á Mogganum varð til þess að blómlegur vefur varð til

Akureyri.net fagnaði fimm ára starfsafmæli á árinu. Lengi var Skapti Hallgrímsson ritstjóri eini starfsmaðurinn en í dag eru þeir fimm. „Það var sagt við mig þegar ég byrjaði að ég gæti ekki birt eitthvað nýtt á hverjum degi því hér gerðist aldrei neitt eða mjög lítið. En á þessum fimm árum hafa að jafnaði birst um níu fréttir, greinar eða eitthvað á hverjum einasta degi,“ segir Skapti. Efnið á Akureyri.net er fjölbreytt. Þar eru sagðar fréttir, mannlífssögur, birtir aðsendir pistlar og myndum gert hátt undir höfði. Svo eru líka íþróttunum gerð góð skil. Landinn fylgdi Skapta einmitt á leik KA gegn Þór í efstu deild í handbolta.