Veður er með rólegra móti í morgunsárið og lítil úrkoma heild á litið. Það á aftur á móti eftir að breytast þegar líður á daginn. Síðdegis gengur í mikið og langvinnt sunnan hvassviðri sem stendur fram á aðfangadag. Enn verður nokkuð hvasst á jóladag. Hvassasti kaflinn í þessu veðri verður líklega fyrripart aðfangadags á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula stormviðvörun í þessum landshlutum. Þar má búast við því að hviður geti farið yfir 40 metra á sekúndu. „Þegar vindstyrkur er orðinn þetta mikill eru ekki bara lausir munir sem geta fokið, heldur geta byggingar á stöku stað skemmst, t.d. losnað þakplötur,“ segir í veðurpistli frá Veðurstofu Íslands. Gular stormviðvaranir taka gildi í dag á norðan- og vestanverðu landinu áður en þær verða appelsínugular á morgun. Að morgni aðfangadags bætast Austurland og Austfirðir í hópinn. Þessu sunnanveðri fylgir talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu frá því síðdegis í dag og allan aðfangadag. Gular viðvaranir vegna rigningar hafa því verið gefnar út á vestanverðu landinu. Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hefur varað við auknum líkum á skriðuföllum vegna þessa vatnsveðurs, hlýinda og leysinga. Mestar líkur eru á skriðuföllum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Vegagerðin vekur athygli á þessu á vef sínum, umferdin.is , þar sem skriður gætu fallið á vegi sem liggja undir bröttum hlíðum. Útlit er fyrir minni úrkomu á jóladag, en einhverja vætu þó. Sunnanáttin færir einnig hlýjan og rakan loftmassa yfir landið, ættaðan langt sunnan úr höfum. Við þessar aðstæður getur hiti náð sér vel á strik í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi. „Það kæmi ekki á óvart að sjá 17-18 stig á einhverri mælistöð í þessum landshlutum áður en veðrinu lýkur, t.d. á aðfangadagskvöld eða að morgni jóladags,“ segir í veðurpistli. Hæsti hiti sem mælst hefur í desember er 19,7 stig, 2. desember 2019. Þá var sunnanátt svipuð þeirri sem nú er spáð. „Því er ekki hægt að útiloka þann möguleika að desemberhitametið falli nú um jólin, því hnjúkaþeyrinn getur verið brellinn og brögðóttur.“