Rússlandsher gerði umfangsmiklar árásir á úkraínska orkuinnviði í nótt. Þær valda rafmagnsleysi í mörgum héruðum landsins. Opinbera orkufyrirtækið Ukrenergo segir rafmagn hafa verið tekið af mörgum héruðum í varúðarskyni. Í það minnsta þrír hafa verið drepnir í árásunum, að því er segir í frétt BBC . Meðal hinna látnu er fjögurra ára barn. Loftvarnarflautur glumdu víða í landinu, þar á meðal í höfuðborginni Kyiv. Pólverjar brugðust við með því að senda herþotur á loft. Það er varúðarráðstöfun sem reglulega er gripið til þar í landi. Ekki nægur þrýstingur á Rússum að mati forsetans Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segir 600 dróna hafa verið notaða í árásinni og 30 flugskeyti. Hann segir að árásir sem gerðar eru rétt fyrir jól, „þegar fólk vill einfaldlega vera með fjölskyldum sínum, heima, öruggt,“ senda skýr skilaboð um forgangsefni Rússa. „Pútín getur ekki samþykkt að hann verði að stöðva drápin. Þetta sýnir að ríki heims hafa ekki sett nægan þrýsting á Rússa,“ segir Zelensky. Ráðuneyti orkumála segir rafmagni verða komið aftur á þegar jafnvægi hefur verið náð í orkukerfinu. Aukinn þungi hefur að undanförnu verið í árásum á orkuinnviði, svo sem gasvinnslustöðvar. Gas er víða notað til húshitunar í landinu en þar er hiti víða í kringum frostmark í dag. Í höfuðborginni nær hitinn hæst í tvö stig í dag en þar er búist við sjö stiga frosti á morgun.