Sveitarfélög fá ekki lengur lán úr ofanflóðasjóði vegna undirbúnings framkvæmda við varnarvirkni, nái frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fram að ganga, heldur verður kostnaðarhlutfall ofanflóðasjóðs hækkað í 99%. Það sama á við um kaup á eignum vegna eignarnáms í tengslum við ofanflóðahættu. Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum eru opin til umsagnar í samráðsgátt. Lagt er til að sveitarfélög fái ekki að selja fasteignir sem keyptar hafa verið með fé ofanflóðasjóðs nema til flutnings af hættusvæði. Þá verði einnig óheimilt að skipuleggja íbúabyggð, frístundabyggð eða svæði fyrir atvinnustarfsemi nema tryggt hafi verið að áhætta fólks með tilliti til ofanflóða verði ásættanleg. Fólk megi þar að auki ekki dvelja í eignum á hættusvæði, sem teknar hafa verið eignarnámi, utan heimils nýtingartíma. Það tímabil er frá 1. nóvember til 30. apríl vegna snjóflóðahættu. Frumvarpsdrögin kveða einnig á um að mat Veðurstofu þurfi að liggja fyrir ef nota á fé ofanflóðasjóðs til að kaupa upp fasteignir þar sem varnir auka ofanflóðahættu. Það á til að mynda við þar sem varnarvirki myndi beina snjóflóði eða skriðu á umrædda lóð. Þá fái Vegagerðin heimild til að taka að sér verkefni fyrir ríki og sveitarfélög sem tengjast vörnum gegn ofanflóðum. Markmiðið með breytingunum er meðal annars að auka skýrleika um varnir gegn ofanflóðum. Þar er kveðið á um að breyta markmiðsákvæði laganna svo það samræmist betur upphaflegu markmiði þeirra, að aftra manntjóni og slysum.