Rússnesk stjórnvöld réttlættu innrásarstríð í Úkraínu með því að verja þyrfti hana fyrir yfirgangi nasista og þjóðarmorði. Úkraína á sér vissulega myrka sögu and-semitisma og um helmingur nærri þriggja milljóna gyðinga sem bjuggu þar við upphaf seinna stríðs var drepinn en fátt styður staðhæfingar um að Rússar hafi orðið að ráðast inn í Úkraínu til koma í veg fyrir einræðisríki nasista. Leggja grunn að mögulegri innrás Rússnesk stjórnvöld hafa horn í síðu fleiri ríkja og viðhafa álíka undirróður gegn þeim. Nýlega birtist skýrsla sem heitir Sagan sem vígvöllur, unnin fyrir sænsk stjórnvöld af stofnun sem er ábyrg fyrir sálrænum vörnum, Myndigheten for psykologiskt forsvar. Höfundurinn, Patrik Oksanen tíundar þar fjörutíu atriði þar rússnesk yfirvöld og stofnanir snúa upp á atburði úr finnskri sögu. Þetta áróðursstríð gegn grannanum i vestri er löngu hafið en verulega hefur bæst í eftir að Úkraínustríðið hófst og Finnar gengu í Atlantshafsbandalagið. Sótt að Finnum á svipaðan hátt Dæmin sem Oksanen tekur eru öll frá árinu sem er að líða og snúast ekki bara um áróður og að draga fram tengsl Finna við nasista í seinna stríði heldur líka samstilltar aðgerðir fyrir dómstólum, eyðileggingu minnismerkja, pólitískar yfirlýsingar og beinar hótanir. Í Karelíu, við landamærin að Finnlandi, hafi dómstólum og aðgerðasinnum verið beitt til að ljá aðgerðum lagalegt yfirbragð og svip grasrótarstuðnings. Verið sé að leggja falskan grunn að kröfum um landsvæði eða skaðabætur fyrir þjóðarmorð sem aldrei voru framin. Stöðugt bæti í og öllu þessu, áróðri, málarekstri og aðgerðum sé ætlað að búa til skilyrði fyrir mögulegri árás. Dropinn holar steininn Þótt sérstaklega sé horft til Finnlands segir Oksanen að þetta sé miklu víðtækara og beinist að Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjum og Póllandi. Grípa verði til samstilltra aðgerða, ekki bara bregðast við þegar rangt er með farið heldur taka frumkvæði, því þetta hafi áhrif og dropinn holi steininn. Viðhorf Rússa til Finna sé mælanlega verra en það var fyrir nokkrum árum. Rússnesk stjórnvöld reka ekki bara stríð á jörðu. Þau hafa undanfarin ár farið mikinn í áróðursstríði þar sem farið er frjálslega með söguna til að réttlæta innrás í Úkraínu og beina spjótum sínum að fleiri ríkjum ekki síst grönnum eins og Finnum. Full ástæða fyrir nágrannaríki Rússa að vera uggandi Rósa Magnúsdóttir prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands segir ekki nýtt að sögunni sé beitt á þennan hátt en nálgun Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands sé nokkuð önnur. Hann hefur lagt mikla áherslur á Rússlandi sem fórnarlamb og hlut Sovétríkjanna í seinna stríði eða stóra þjóðernisstríðinu eins og það heitir í Rússlandi. Pútin hafi tekist vel að draga upp mynd af Sovétríkjunum sem stórveldi og að honum hafi tekist að koma á stöðugleika eftir ringulreiðina sem ríkti eftir fall þeirra. Rósa segir að taka verði alvarlega það sem Pútín segir því hann hafi sýnt það með innrásinni í Úkraínu að honum sé full alvara með fullyrðingum sínum.