Útlit er fyrir appelsínugul jól í hlýviðri í ár. Veðurspár gera ráð fyrir mikilli rigningu og hlýindum næstu daga á Vestfjörðum og Vesturlandi. Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi Stormur, hjá Veður ehf. ræddi við Morgunútvarpið í síðustu viku og spáði þar mikilli lægð um jólin. Svo virðist sem það ætli að rætast úr spánni en í viðtali við Morgunútvarpið í dag segir Sigurður mikið vatnsviðri og stormasamt veður framundan. Gular og appelsínugular viðvaranir verða víða í gildi fram á jólanótt og ofanflóðavakt Veðurstofunnar vekur athygli á auknum líkum á grjóthruni og skriðum á vegum undir bröttum hlíðum. „Upp úr hádegi í dag ganga skil inn á landið fyrst með minniháttar úrkomu en aðalskilin ganga inn á landið um þrjúleytið í dag og þá erum við að tala um talsvert mikið vatnsveður,“ segir Sigurður. Vatnsveðrið verði langvinnt fram á aðfangadag, einkum á Suður- og Vesturlandi. Sigurður segir fólk geta nýtt sér lítinn glugga fyrir hádegi til þess að klára jólainnkaupin áður en veðrið skellur á. Hann segir þó ekki einungis slæmt veður framundan og enda sé einstaklega mikið hlýviðri í kortunum þessi jólin en hitaspá er allt að 16 gráður á Norður- og Austurlandi. „Ef við reynum að sjá eitthvað jákvætt við þetta þá erum við að tala um að hitamet gæti verið fallið fyrir desembermánuð,“ segir Sigurður. „En þetta er afskaplega ójólalegt.“