Óvissa um tímasetningu næsta goss hleypur á mánuðum

Kvikusöfnun undir Svartsengi er hæg en stöðug, líkt og hún hefur verið síðustu vikur. Á meðan svo er eru áfram auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi. Óvissa um tímasetningu á næsta eldgosi er meiri þegar kvikusöfnun er hæg. „Óvissan um tímasetningu miðað við hraða kvikusöfnunar núna hleypur á nokkrum mánuðum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands . 18 milljónir rúmmetra hafa bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi frá síðasta eldgosi í júlí. „Mælingar og líkanreikningar benda til þess að frá mars 2024 hafi það rúmmál kviku sem þarf til að valda kvikuhlaupi eða eldgosi aukist. Magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi milli eldgosa frá þeim tíma hefur verið á bilinu 17–23 milljónir rúmmetrar.“ Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt og gildir til 6. janúar. Veðurstofan fylgist áfram náið með þróuninni allan sólarhringinn. Hvassviðri næstu daga er þó talið hafa áhrif á mælingar, „sérstaklega hvað varðar skyggni og næmni ljósleiðara, jarðskjálfta- og rauntíma GPS-mælinga“.