Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í 9 mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Maðurinn sló annan í höfuðið með glerflösku á skemmtistað á Ísafirði í apríl 2023. Sá sem varð fyrir árásinni hlaut skurð á enni auk punktblæðinga á kinnum og höku. Maðurinn neitaði sök við þingfestingu málsins í september. Hann breytti síðar afstöðu sinni til ákærunnar og játaði afdráttarlaust sök. Játningin var metin manninum til málsbóta. Einnig var litið til ungs aldurs hans þegar brotið var framið. Þá kom fram að ákærði hefur farið í meðferð og hafið nám að nýju við fjölbrautskóla „og virðist einbeittur í að snúa lífi sínu til betri vegar. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að ákærði er nú sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem beindist að höfði brotaþola,“ segir í dómi héraðsdóms. Maðurinn hafði tvívegis áður verið dæmdur fyrir hættulegar líkamsárásir. Í dómsorði segir að hann skuli sæta fangelsi í 9 mánuði. Fullnustu refsingar skal frestað og hún fellur niður, haldi maðurinn skilorði í tvö ár.