Jólahátíðin nálgast óðfluga og allt verður hátíðlegra í kringum okkur með hverjum deginum. Jóladagskrá sjónvarps er þar engin undantekning en þar er boðið upp á gnægtaborð hátíðlegra og skemmtilegra dagskrárliða þar sem allir fjölskyldumeðlimir ættu að finna eitthvað fyrir sinn snúð. Þegar hafa verið sýndar nokkrar af vinsælustu jólamyndunum eins og Home Alone, Die Hard, Jingle All the Way en á næstu dögum má finna meðal annars frumsýningar á nýjum íslenskum kvikmyndum og upptöku frá tónleikum okkar skærustu stjörnu í tónlistinni um þessar mundir. Konungur ljónanna korter í jól Á aðfangadag jóla verður á dagskrá fjölskyldumyndin Konungur ljónanna. Þarna er á ferðinni endurgerð frá 2019 á einni af vinsælustu teiknimyndum sögunnar, Lion King, sem kom út árið 1994, um ljónið Simba og vini hans. Simbi er fjörugur ljónsungi sem hlakkar til að taka við af föður sínum sem konungur dýranna þegar hann verður stór. Illur föðurbróðir hans, Skari, hefur þó sín eigin áform sem ógna friðsælu ríkinu. Myndin er á dagskrá klukkan 16.00 á aðfangadegi og því tilvalið fyrir yngri kynslóðina, sem og þau eldri sem geta gefið sér tíma, að gleyma sér yfir þessari kvikmyndaklassík og láta tímann líða. Á jóladag er einstaklega vegleg dagskrá fyrir börnin og vekja má sérstaka athygli á hinni fallegu teiknimynd án orða, Snjókarlinn og snjóhundurinn, sem segir frá snjókarli sem eignast góðan vin. Myndin er framhald af sígildri mynd um Snjókarlinn. Að kvöldi jóladags geta landsmenn notið tónlistarveislu frá skærustu stjörnu íslensks tónlistarlífs um þessar mundir, Laufeyju Lín. Um er að ræða upptöku frá tónleikum Laufeyjar ásamt Los Angeles Fílharmóníunni á hinu sögufræga sviði Hollywood Bowl frá í fyrra. Einnig er skyggnst á bak við tjöldin við undirbúning tónleikanna. Kvikmyndin Snerting verður sýnd að kvöldi jóladags Til þess að kóróna sjónvarpskvöldið á jóladag verður kvikmyndin Snerting frá 2024 í leikstjórn Baltasars Kormáks sýnd. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar og fjallar um Kristófer, sjötugan ekkil á eftirlaunum, sem leggur upp í ferð yfir hálfan hnöttinn í miðjum heimsfaraldri í von um að finna skýringu á afdrifum kærustu sinnar sem lét sig hverfa frá London 50 árum fyrr. Aðalhlutverk eru í höndum Egils Ólafssonar, Kôki, Pálma Kormáks Baltasarssonar og Masahiro Motoki. Á öðrum degi jóla heldur svo jólaveislan áfram þar sem finna má frumsýningu á annarri íslenskri kvikmynd auk frábærrar fjölskyldumyndar eftir sögu Rudyard Kipling. Skógarlíf, eða The Jungle Book, er frá 2016 og segir sögu drengsins Móglí sem elst upp meðal úlfa í frumskóginum. Þegar hættulegt tígrisdýr ógnar lífi hans reynir dýrafjölskyldan að sannfæra hann um að yfirgefa skóginn og setjast að meðal manna. Það er svo íslenska kvikmyndin Ljósvíkingar sem kom út í fyrra sem tekur við af Móglí og félögum en myndin segir frá æskuvinum sem reka fiskveitingastað á sumrin í heimabæ sínum og dreyma um að hafa opið árið um kring. Þau Björn Jörundur Friðbjörnsson og Arna Magnea Danks fara með aðalhlutverkin í Ljósvíkingum. Jóladagskrána má svo skoða í heild sinni í Spilara RÚV, fjölmarga dagskrárliði má t.a.m. horfa á þar áður en þeir verða á dagskrá sjónvarps en einnig má finna þar úrval af vönduðu efni af ýmsum toga. Vafalaust verður víða veisla á borðum landsmanna þegar jólahátíðin brestur á en ekki verður veislan minni fyrir þau sem ætla að koma sér notalega fyrir í sófanum og njóta sjónvarpsdagskrárinnar fram undan.