Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er orðin ýmsu vön eftir fjölda ára í keppni erlendis. Aðstæðurnar á lokaúrtökumóti í Marokkó nýverið komu henni þó örlítið á óvart. Guðrún lék afar vel á mótinu og tryggði sér þar með keppnisrétt í LET mótaröðinni, þeirri sterkustu í Evrópu. Guðrún var hársbreidd frá fullum keppnisrétti en mun taka þátt í meirahluta mótaraðinnar. Guðrún er farin að þekkja aðstæður í Marokkó nokkuð vel eftir að hafa keppt þar í fjölda ára. Á mótinu eru fimm keppnisdagar en hætt var við einn vegna veðurs. Íslenski ullarbolurinn kom að góðum notum. „Þetta var svolítið skrýtið. Ég er búin að vera þarna nokkrum sinnum á þessum tíma. Það er yfirleitt þannig að maður er í peysum á morgnana og svo bara stuttbuxum og stuttermabol.“ „Núna var þetta íslenski ullarbolurinn og skítkalt. Ég lét sjúkraþjálfarann koma með annan ullarbol fyrir mig út.“ Viðtal við Guðrúnu Brá má sjá hér að neðan. Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir náði góðum árangri í lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar í Marokkó nýverið. Hún mun spila á sterkustu mótaröð Evrópu á næsta ári. Guðrún ræddi mótið í Marokkó og áfangann. Stór áfangi Guðrún lék alls á átta höggum undir pari. Hún endaði í 24. til 29. sæti, tveimur höggum frá topp tuttugu. „Ég get keppt á Evrópumóti kvenna á næsta ári. Þetta er næstbesti árangur sem ég hefði getað náð á þessu móti. Þetta gefur mér flest öll mót á næsta ári. Við byrjum strax í febrúar og þetta er mjög spennandi.“ Árangurinn þýðir þó að hún er efst í forgangsröðun fyrir öll mót á mótaröðinni á næsta ári. Hún mun því að öllum líkindum keppa í um 15 af 28 mótum á næsta ári. LET-mótaröðin þykir sú sterkasta í Evrópu. Guðrún fær CAT 16 þátttökurétt. „Þetta gekk ótrúlega vel. Þetta er stressandi og það er hátt spennustig í þessu móti. Þetta er langt mót og maður verður að reyna að spara orkuna og halda sér rólegri allan tímann. Það gekk vel.“ Guðrún var með sterkt teymi með sér ytra. „Ég var með Nökkva þjálfarann minn með mér. Það hjálpaði alveg helling. Svo var sjúkraþjálfarinn minn Baldur líka þarna á kantinum. Það gefur manni styrk.“ Óvissan úr sögunni Guðrún hefur leikið á mótaröðinni síðustu ár en nú er hún með forgang. Áður fyrr gat hún þurft að hoppa í mót víðs vegar um Evrópu með afar skömmum fyrirvara. „Ég er búin að vera að spila á þessari mótaröð síðustu ár. Í fyrra var ég með aðeins verri þátttökurétt á mótaröðinni. Það gerði það þannig að ég var að hoppa á mót á seinustu stundu. Ég var óviss hvort ég kæmist inn eða ekki. En núna er meira öryggi, þannig getur maður planað bæði tíma og fjármagn betur.“ Hvað gefur henni þetta andlega? Það er afar mikið undir á lokaúrtökumótum líkt og þessu í Marokkó. Næsta ár veltur nær allt á einu móti. Hversu mikið gaf þetta Guðrúnu og hvernig lítur framhaldið út? „Gott jólafrí. Það er ógeðslega gott að fara í pásu og vita að þú ert á góðum stað fyrir næsta ár.“ „Nú er það að njóta með fjölskyldunni og vinum. Ég held ég taki mér frí yfir áramót og byrja svo að æfa á fullu í janúar. Ég er bara nýkomin heim þannig ég er ekki alveg búin að negla niður planið,“ sagði hún að lokum