Játning ársins

Maður sem tók þátt í því sem kallað hefur verið fyrsta bankarán á Íslandi gekk inn á lögreglustöð í sumar og játaði brot sitt. Hann fær því titilinn játning ársins. Stuldurinn átti sér stað snemma árs 1975 og var fremur lítill í sniðum miðað við seinni tíma bankarán. Í janúar 1975 birti Mánudagsblaðið litla frétt sem bar fyrirsögnina „Fyrsta bankarán á Íslandi?“ Þar var því lýst hvernig óþekktir menn hefðu komist inn í útibú Útvegsbankans í Kópavogi og haft á brott 20-30 þúsund krónur í skiptimynd. Fimmtíu árum síðar gaf einn þjófanna sig fram við lögreglu og sagðist hafa stolið peningunum ásamt vinum sínum sem allir voru á fermingaraldri á þessum tíma, fyrir hálfri öld.