Atvinnuvegaráðherra boðar ný heildarlög um lagareldi

Atvinnuvegaráðherra vill styrkja lagaramma um lagareldi og sporna gegn neikvæðum umhverfisáhrifum þess með nýjum heildarlögum. Frumvarpsdrög þess efnis eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda . Margar breytingarnar sem þar eru lagðar til stafa af ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar 2023 þar sem stjórnsýsla varðandi sjókvíaeldi var sögð veikburða og brotakennd. Meðal helstu breytinga er varða sjókvíaeldi eru auknir hvatar til nýtingar lokaðs búnaðar og ófrjós lax, skilvirkari viðbrögð vegna stroks, og hertar reglur um eftirlit með kynþroska eldislaxa. Þá er kveðið á um aukið aðhald og viðbrögð vegna lúsasmits og áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnasvæða. Nái frumvarpið fram að ganga verða felld úr gildi lög 71/2008 um fiskeldi auk laga 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Hvað eru hafeldi og fjarðarbeit? Hafeldi er eldi sem er stundað utan fjarðarkerfa. Það er enn sem komið er aðeins á hugmyndastigi hér á landi. Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að áhugi á slíkri starfsemi hafi aukist síðustu ár. Ráðast þurfi í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir til þess að komast að því hvort hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu. Markmiðið með þeim yrði að finna stað þar sem ræktunarskilyrði fisks eru sem best og sem minnst áhrif yrðu af hafeldi á vistkerfi, villta stofna og sjávarbotn. Fjarðarbeit felst í að rækta fisk í lokuðu búri á talsverðu dýpi. Þá nærist fiskurinn eingöngu á náttúrulegu dýrasvifi sem er laðað að búrinu með ljóstækni. Greinin er á frumstigi og er ætlunin með frumvarpinu að veita tilraunum í fjarðarbeit lagastoð. Regluverk um landeldi byggir að mestu leyti á fyrrnefndum lögum um fiskeldi en í nýju frumvarpsdrögunum er fjallað sérstaklega um landeldi. Atvinnuvegaráðherra leggur einnig til að Fiskeldissjóður verði lagður niður sem lið í einföldun stjórnsýslu og að gjaldtaka taki mið af afkomu greinarinnar og tryggi samkeppnishæfni. Hún hefur einnig kynnt til samráðs drög að frumvarpi um breytingu á lögum um lax og silungsveiði, lögum um fiskrækt og lögum um Fiskræktarsjóð. Þar er meginmarkmiðið sagt vera að fiskrækt í ám og vötnum verði framkvæmd með ábyrgum og sjálfbærum hætti, í samræmi við varúðarreglu og með þarfir vistkerfa í huga.