Auk lagsins “Nóttin var sú ágæt ein” kannast margir við lög Sigvalda “Aðfangadagskvöld jóla” (Kirkjan ómar öll) og “Ave María”. En alls samdi Sigvaldi 13 jólalög, svo vitað sé. Eitt þeirra virðist því miður vera glatað: “Jólakvöld” sem talið er upp í verkaskrá hans í ævisögunni “Bókin um Sigvalda Kaldalóns” sem Gunnar M. Magnúss skráði. Það lag var samið við ljóð Davíðs Stefánssonar sem hefst á orðunum “Nú skal leika á langspilið veika”. Nýjar hljóðritanir Lögin sem hljóðrituð hafa verið sérstaklega fyrir þáttinn “Jól með Sigvalda Kaldalóns” eru þessi: “Jólasveinar einn og átta”, “Jólatréð”, “Jólasveinar ganga um gólf”, “Það birtir”, “Jólavers” og “Stjarnan”. Fyrstu lögin fjögur flytja söngkonan Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir og píanóleikarinn Eva Þyri Hilmarsdóttir, hin lögin tvö flytja Sönghóparnir Kyrja og Yrkja, en listrænir stjórnendur þeirra eru Philip Barkhudarov og Sólveig Sigurðardóttir. Sigvaldi Kaldalóns, læknisstörfin og fjölskyldan Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Reykjavík 13. janúar 1881 og hét upphaflega Sigvaldi Stefánsson, en tók sér síðar ættarnafnið Kaldalóns. Hann stundaði læknisfræðinám í Kaupmannahöfn og kynntist þar ungri danskri hjúkrunarkonu, Karen Margrethe Mengel Thomsen, sem varð eiginkona hans. Sigvaldi útskrifaðist sem læknir árið 1908 og vorið 1911 fékk hann veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og fluttist ásamt konu sinni að Ármúla í Nauteyrarhreppi. Skammt þar frá er Kaldalón og er ættarnafn Sigvalda þaðan komið. Sigvaldi og Karen Margrethe eignuðust saman þrjú börn, en fyrir átti Karen Margrethe soninn Karl Oluf Bang. Jólalagið sem bjargaði fjárhag fjölskyldunnar Árið 1920 veiktist Sigvaldi af berklum og varð þá að flytja suður með fjölskyldu sína. Hann var um tíma á heilsuhæli í Danmörku og kona hans og börn flest hjá honum. Þau komu aftur til Reykjavíkur haustið 1922, en Sigvaldi var ekki orðinn fullkomlega heilsuhraustur og afar þröngt í búi hjá honum og fjölskyldunni. Við þetta bættist það að flestir í fjölskyldunni veiktust af inflúensu árið 1923 og útlitið var ekki bjart þegar leið að jólum það ár. Karl Oluf, stjúpsonur Sigvalda, segir þannig frá í æviminningum sínum, “Ég var felubarn”: En mitt í öllu þessu vonleysi á heimilinu varð sá atburður fyrir jólin að Sigvaldi samdi lag við “Jólasveinar einn og átta”. Jón Rósinkransson læknir aðstoðaði hann við að fjölrita lagið, að ég held í 200 eintökum. Ég var svo fenginn til að ganga í hús og selja þau á kr. 2.00. [...] Ekki veit ég betur en öll lögin hafi selst, svo að þar bættust 400 kr. í “jólakassann” og það munaði um minna. Nóttin var sú ágæt ein Árið 1941 kom út jólalag sem Sigvalda kallaði einfaldlega Jólakvæði, en það hefur orðið þekkt undir upphafshendingunni: “Nóttin var sú ágæt ein”. Sigvaldi samdi lagið um jólin 1940 og lýsti tilurð þess þannig í bréfi til Ragnars Ásgeirssonar 30. desember 1940: Kæri vin. Eg þakka þér fyrir upphringinguna og bréfið; sendi þér nú hérmeð jólalagið, sem eg hefi gert á þessum jólum við yndælan texta, sem eg fann í „Vikunni“, sem eg annars aldrei les; en þegar eg sá þetta kvæði, sem er 400 ára eftir sjera Einar Sigurðsson í Heydölum (eða Eydölum) föður Odds biskups og sá hvað það var fallegt, þá reyndi eg að hnoða við það og sendi þér hér með; vona að ykkur þyki það sæmilegt. Sigvaldi náði sér aldrei fyllilega eftir berklana og hann lést árið 1946, 65 ára að aldri. Síðustu jólin sem hann lifði naut hann þeirrar ánægju að heyra lag sitt „Kirkjan ómar öll“ sungið við messu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þátturinn “Jól með Sigvalda Kaldalóns” er á dagskrá á aðfangadag kl. 16.05. Umsjón með honum hefur Una Margrét Jónsdóttir, en lesarar eru Kristján Franklín Magnús og Sigurlaug M. Jónasdóttir.