„Þegar erlendur gestur er spurður að því hvað hann langar helst að gera á Íslandi þá nefnir hann heimsókn í spa eða heimsókn í náttúrulaug. Fólki finnst magnað að leggjast í heitt vatn eftir að hafa verið úti að leika sér eða gera eitthvað skemmtilegt. Ég held að við getum gert ennþá betur þar,“ segir Magnús Orri Schram sem er yfirmaður þróunarmála hjá Bláa lóninu. Hann segir að Bláa lónið sé með tvo nýja baðstaði á teikniborðinu en að ekki sé tímabært að greina frá staðsetningu þeirra eða öðrum upplýsingum um þá. Magnús Orri svarar spurningum um gagnrýna umræðu sem hefur verið í samfélaginu um uppbyggingu í ferðaþjónustu í náttúru Íslands nú í lok ársins. Bláa lónið tengist þessari umræðu vegna uppbyggingarverkefna fyrirtækisins á miðhálendinu. Meðal annars við Hoffellsjökul á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem til stendur að reisa hótel og opna baðlón og eins vegna verkefnis í Þjórsárdal. Umræða hefur verið um slík uppbyggingarverkefni meðal annars vegna byggingar smáhýsa fyrir ferðamenn í Skaftafelli. Magnús Orri segir um verkefnið við Hoffell: „Við teljum að Hoffellsverkefnið okkar geti orðið stór og mikill segull og að við getum öll verið stolt af þessu verkefni þegar fram líða stundir.” Rætt er við Magnús Orra og fjallað um fyrirætlanir Bláa lónsins við uppbyggingu baðstaða á Íslandi í fréttaskýringaþættinum Þetta helst. Þáttinn má hlusta á hér: Bláa lónið ætlar að opna baðstaði í Þjórsárdal og við Hoffellsjökul. Fyrirtækið er svo með tvo aðra baðstaði á teikniborðinu. Yfirmaður þróunarmála hjá Bláa lóninu ræðir um gagnrýni sem komið fram á verkefni fyrirtækisins á miðhálendinu. Segir lykilatriði að byggja vel Tæplega 100 umsagnir hafa borist til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaða framkvæmda Bláa lónsins við Hoffellsjökul. Sumar umsagnirnar eru jákvæðar á meðan aðrar eru gagnrýnar. Gagnrýnin snýst meðal annars um það að verið sé að spilla lítt eða ósnortnum víðernum Íslands og að ferðaþjónustufyrirtæki séu að spilla þeirri náttúru sem ferðamenn flykkjast til Íslands til að skoða. Þessi gagnrýni hefur meðal annars komið fram í viðtali við Erlu Guðnýju Helgadóttur sem er fjallamennskukennari, jöklajarðfræðingur og náttúruverndarsinni. Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Náttúruverndarstofu, hefur einnig sagt í þessu sambandi að taka þurfi umræðu að hversu mikið af mannvirkjum eigi að byggja í lítt snortinni náttúru Íslands. Hún segir þessa umræðu vera „krefjandi jafnvægislist”. Magnús Orri Schram segir að lykilatriði sé að byggja vel og fallega í framkvæmdum í náttúru landsins. Hann segir að Bláa lónið hafi þessa hugsun alltaf í forgrunni í sínum verkefnum. „Við erum að framkvæma á fallegum stöðum en við gerum það af mikilli virðingu fyrir umhverfinu, fyrir heimafólki og þeirri ábyrgð sem okkur er treyst fyrir. [...] Það eru hagsmunir okkar allra að vel takist til, að fólk vandi sig í því að byggja upp baðlón. Alveg eins og það eru sundlaugar í hverju þorpi á Íslandi þá gætu verið fleiri baðlón eða baðupplifanir á Íslandi. Þær þurfa hins vegar að vera ólíkar, þær mega ekki allar vera eins.”