Trausti Ólafsson skrifar: Ég kýs að líta yfir sviðslistir í leikhúsum höfuðborgarinnar undanfarna tólf mánuði með því að geta fyrst nokkurra sýninga sem mér voru sérstakt ánægjuefni. Að því búnu vík ég að tveimur meginþráðum sem settu að mínum dómi mikinn svip á sviðslistir á árinu. Þótt mér fyndist þokudrungi markaðsvæðingarinnar grúfa yfir sumum sýningum stóru leikhúsanna tveggja í Reykjavík var árið ekki án gleðistunda. Árið án sumars, magnað samlistaverk sem sviðslistahópurinn Marmarabörn frumsýndi á stóra sviði Borgarleikhússins í byrjun febrúar, var gleðigjafi og listrænn metnaður var aðal verksins - ekki peningahyggjan. Nýtt leikrit Hrafnhildar Hagalín sem heitir Heim, vel skrifað og sviðsett verk, bar heldur ekki nein afgerandi merki markaðsvæðingarinnar og sýningin er eftirminnileg. Lína langsokkur á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu var líka skemmtileg uppfærsla á sígildu barnaleikriti og full af leikgleði. Þar spiluðu allir þræðir leikhússins, leikmynd, búningar, leikstjórn, leikur og tónlist fallega og harmónískt saman. Og seint verður trúlega jólasýning Þjóðleikhússins á Óresteiu Æskílosar kennd við eftirsókn eftir auði og vindi. Einleikurinn Ífigenía í Ásbrú og barnaóperan Hans og Gréta voru næstum jafn ólíkar sýningar og hugsast getur, en báðar voru sýndar í Tjarnarbíói og skoruðu hátt á gæðakvarðanum sem ég hef komið mér upp. Hið sama get ég sagt um sýningu listhópsins Óðs á La boheme sem frumsýnd var í byrjun þessa mánaðar. Ég hlýt líka að minnast á Marlene Dietrich í túlkun Sigríðar Ástu Olgeirsdóttur. Í þeirri sýningu í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll skein sólin glatt þótt öðrum þræði væri fjallað um myrk efni og markaðshyggju sem drepur. Flóðreka eftir Aðalheiði Halldórsdóttur og Jónsa úr Sigurrós sem dansarar Íslenska dansflokksins túlkuðu ógleymanlega á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu var í mínum augum og eyrum einn af hápunktum ársins. Flóðreka og Árið án sumars staðfestu það með afgerandi hætti að danslistin er iðkuð hérlendis af kostgæfni og listfengi. Í tilraun til þess að horfa yfir sviðslistir á árinu 2025 er óhjákvæmilegt að nefna Skammarþríhyrninginn, sýningu Stertabendu í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur, og Hamlet í leikgerð og leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur, en bæði verkin eru sýnd á Litla sviði Borgarleikhússins. Skammarþríhyrningurinn fjallar um áleitin og afar mikilvæg efni. Verkið gerist í framtíðinni þegar menningarstríðinu er lokið og kynrænt sjálfræði, hinsegin mannréttindi og kvenfrelsi heyra sögunni til. Þessi efni eru ekki neitt gamanmál en sýning Stertabendu er svo skemmtileg, beinskeytt og listrænt frumleg, að þess háttar samspil sjáum við ekki oft í íslensku leikhúsi. Hamlet í túlkun Kolfinnu og hennar sterka leikhóps, að ógleymdri hlutdeild annarra listrænna stjórnenda er - svo ég leyfi mér að bregða fyrir mig orðalagi Susan Sontag - grimmdarverk í gnostískum anda Antonins Artaud. Þar mátti einnig greina áhrif frá Peter Brook og lýsingum hans á hrjúfu, heilögu og milliliðalausu leikhúsi. Brook er greinilega endingargóður og drjúgur brúarsmiður þegar klassískur leiktexti er túlkaður á djarfan hátt. Meistaraverk Shakespeares er brotið niður í smátt, stundum nánast í öreindir, á Litla sviði Borgarleikhússins og byggt upp á ný fyrir okkar samtíma. Lýsing og tónlist, raddir og líkamar leikaranna dreifa skáldskapnum af krafti um allt rýmið. Svoleiðis nokkru er erfitt að kyngja sitji maður gikkfastur á sængurstokknum hjá honum gamla og gilda Aristótelesi. En unga fólkið þekkir sinn vitjunartíma og þyrpist á áhorfendabekkina til þess að sjá sinn Shakespeare. Leikhúsið er þá hvorki dáið né banvænt eftir allt saman. Þvert á móti lifnar það hressilega við þegar það er leyst úr hlekkjum hefðanna og lýsir skært þegar kveikt er í því með grimmd og lífsþorsta. Annan meginþráðinn í sviðslistaannál höfuðborgarinnar fyrir árið 2025 kalla ég markaðsmylluna. Án þess ég vilji orða ábyrgð leikhúsanna jafn kröftuglega og Oddur Björnsson leikskáld sem sagði að leikhúsin ættu að ala upp públikum þá vil ég árétta að leikhúsgestir eru hugsandi verur og eiga rétt á því að til vitsmuna þeirra sé höfðað og gerðar til þeirra kröfur. Skemmtunin ein hrekkur skammt og endist illa sé hún af ódýru tagi. Hinn meginþráðinn í sviðslistum ársins kýs ég að nefna þráð vonarinnar sem þéttist og eflist við hlið markaðsvæðingarinnar og þrátt fyrir hana. Þann marglita vef slá ungir listamenn sem margir hafa numið sína list í Listaháskóla Íslands. Þar starfa líka við kennslu nokkrir af sterkustu danshöfundum okkar. Mér sýnist sem sé að Listaháskólinn gegni vel því hlutverki að rækta gróðurbotninn í sviðslistum hér á okkar norðlægu eyju. Þess vegna getum við átt von á mörgum sólarstundum í íslensku leikhúsi næstu ára þótt trúlega verði seint samfellt sumar á þeim dýrmæta en viðkvæma vettvangi. Trausti Ólafsson, leikhúsgagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, fjallar um sviðslistaárið 2025.