Ofbeldi gegn blaðamönnum og blaðaljósmyndurum í Bandaríkjunum hefur aukist eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu á ný. Flest atvikanna áttu sér stað á mótmælum vegna aðgerða bandarískra stjórnvalda gegn ólöglegum innflytjendum. Samtökin Freedom of the Press Foundation halda utan um tölfræði yfir fjölmiðlafrelsi í Bandaríkjunum. Samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna hafa bandarískir blaðamenn og blaðaljósmyndarar orðið fyrir jafnmörgum árásum á þessu ári og á síðustu þremur árum samanlagt. Samtökin skráðu 170 árásir til 16. desember í ár, flestar þeirra áttu sér stað á mótmælum, en frá 2022 til 2024 voru alls 175 árásir skráðar. Samtökin segja blaðamenn oft fyrsta á staðinn til að flytja fréttir af borgaralegum óeirðum og það skýri þessa tölfræði að hluta. Bandaríkjaforseti og aðrir leiðtogar hafi í ofanálag lýst aukinni andúð á blaðamönnum og fjölmiðlum sem geti leitt til meira ofbeldis. Samkvæmt skýrslunni skráðu samtökin að minnsta kosti 32 atvik þar sem blaðamenn voru handteknir eða ákærðir fyrir að vinna vinnuna sína. Í fyrra voru 50 atvik skráð. Þrátt fyrir að talan sé lægri í ár en í fyrra segja samtökin að hvert og eitt atvikanna hringi viðvörunarbjöllu um það hvernig stjórnvöld stjórni upplýsingaflæði, fréttum og þeim sem flytja þær. Flestir voru látnir lausir án ákæru eða ákærur felldar fljótt niður en áhrifin náðu langt út fyrir þann tíma sem þeir voru í varðhaldi, segir í skýrslunni.