Danskar konur verja almennt meiri pening í verslunarmiðstöðvum en karlar – alla aðra daga ársins en á Þorláksmessu. Þetta kemur fram í umfjöllun danska ríkisútvarpsins þar sem vísað er í gögn frá Danske bank . Tölurnar gefa til kynna að konur kaupi jólagjafir fyrr heldur en karlar og margar hverjar allt að mánuði fyrir jól. DR ræddi við Louise Aggerstrøm Hansen, aðalhagfræðing Danske bank, sem segir að þetta sé raunin ár eftir ár. Konur versla meira á tilboðsdögum Munurinn nemur hins vegar aðeins um hálfri danskri krónu sem menn vörðu að jafnaði meira en konur á Þorláksmessu í fyrra, eða jafnvirði tæplega tíu íslenskum krónum. Aðra daga ársins vörðu danskar konur oftast hálfri til einni danskri krónu meira en karlar í verslunarmiðstöðvum. Í kringum tilboðs- og útsöludaga var munurinn nær fimm krónum og á Svörtum föstudegi 2024 var hann tæplega 20 krónur. Konur verja hins vegar töluvert meiri pening en karlar á tilboðsdögum líkt og Svörtum föstudegi, samkvæmt tölunum. Stór hluti þeirra leikfanga sem seld eru á Svörtum föstudegi í Danmörku er keyptur af konum. Þær voru einnig líklegri en karlar til að kaupa jólagjafir með miklum fyrirvara, margar um mánuði fyrir jól.