Í úttekt Útlendingastofnunar (ÚTL) á trúnaðarbroti starfsmanns er meðal annars til skoðunar hvort og hvaða áhrif brot viðkomandi geti haft á ákvarðanir sem hann hefur átt aðild að í starfi sínu. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi ÚTL, Þórhildur Ósk Hagalín, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Þar var spurt hvort úrskurðir starfsmannsins yrðu látnir niður falla. Starfsmaðurinn deildi nöfnum skjólstæðinga í lokuðum hópi á Instagram og stærði sig meðal annars af því að hafa synjað umsóknum þriggja Kínverja. Af Instagram-birtingunum má lesa að starfsmaðurinn hafi haft ákvörðunarvald í umsóknum um alþjóðlega vernd. Til að mynda birti viðkomandi mynd af sér að borða jólaköku með textanum: „Jólakaka í mallanum & spurningakeppni gillsarans í eyrunum meðan ég skrifa synjun á vernd“ ásamt hjartatjákni. Í svari við því hvort starfsmaðurinn yrði áminntur eða vikið úr starfi vegna trúnaðarbrestsins ítrekar stofnunin að hún upplýsi ekki um mál einstaka starfsmanna. Málið sé engu að síður litið mjög alvarlegum augum. Það sé nú í ferli innanhúss sem taki sinn tíma þar sem að mörgu sé að hyggja.