Varnarmálaráðherra Líbíu fórst í flugslysi

Muhammad Ali Ahmad al-Haddad, yfirhershöfðingi Líbíuhers, og sjö aðrir létu lífið skömmu eftir að einkaþota þeirra fórst skömmu eftir flugtak frá alþjóðaflugvellinum í tyrknesku höfuðborginni Ankara. Forsætisráðherrann Abdul Hamid Dbeibah greindi frá þessu í kvöld og sagðist harma dauða hershöfðingjans. Al-Haddad og nokkrir fulltrúar ríkisstjórnarinnar voru á heimleið eftir fundi með tyrkneskum embættismönnum þegar slysið varð. Talið er að tæknibilun hafi orðið til þess að granda þotunni sem var af gerðinni Dassault Falcon 50. Um það bil 40 mínútum eftir flugtak síðdegis í dag barst tilkynning um fyrirhugaða nauðlendingu og öll samskipti rofnuðu við þotuna skömmu síðar. Tveimur klukkustundum síðar fannst flak hennar, að sögn Ali Yerlikaya, innanríkisráðherra Tyrklands.