Sex sjálfsvíg á Grænlandi á þremur dögum

Sjálfsvígstíðni á Grænlandi er sú hæsta í heiminum. Síðustu helgi féllu þar sex manns fyrir eigin hendi á þremur dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Grænlandi, danska ríkisútvarpið DR greinir frá . Sjálfsvígin voru ótengd og áttu sér stað víðs vegar um landið samkvæmt tilkynningunni. Að meðaltali falla 40 til 50 manns fyrir eigin hendi á Grænlandi árlega. Fjöldi fólks sem fellur árlega fyrir eigin hendi á Íslandi er svipaður, um 40. Á Grænlandi búa einungis um 56 þúsund manns. Fjöldi sjálfsvíga á Grænlandi jafngildir því um 88 sjálfsvígum á hverja 100.000 íbúa. Það er næstum níu sinnum hærra hlutfall en í Danmörku og átta sinnum hærra en á Íslandi. Melina Rosenkilde, skrifstofustjóri hjá hjálparsímanum Tusaannga í Nuuk, segir símtöl vegna sjálfsvígshugsana tíðust yfir vetrarmánuðina. „Það er oft mikið að gera hjá okkur við árstíðaskipti en einnig fyrir jólin. Fjölskyldur koma saman víðs vegar um landið og ef fólk hefur misst nána ástvini er þetta að sjálfsögðu erfiður tími,“ segir Rosenkilde. Hún segir einmanaleika ríkjandi tilfinningu hjá þeim sem hringi í hjálparsímann og deili sjálfsvígshugsunum. „Grænland er gríðarstórt land, þannig að margir bæir og byggðir eru afskekktar. Þess vegna getur tilfinningin um einmanaleika verið lífsskilyrði,“ segir Rosenkilde, sem leggur áherslu á að hún geti ekki sagt neitt almennt um hvað fær suma Grænlendinga til að grípa til sjálfsvígs. Mörg grænlensk ungmenni upplifi áföll Grænlendingar sem falla fyrir eigin hendi eiga það margir sameiginlegt að hafa átt erfiða æsku. Í skýrslu frá Lýðheilsustofnun Danmerkur frá árinu 2021 kom í ljós að mörg grænlensk ungmenni höfðu upplifað áföll í formi áfengisvanda á æskuheimili, ofbeldis og kynferðisofbeldis í æsku. Meirihluti þeirra sem höfðu upplifað áföll í æsku hafði glímt við sjálfsvígshugsanir. Frá janúar 2024 til september sama árs bárust 470 erindi til hjálparsímans Tusaannga sem sneru eingöngu að sjálfsvígum. 60 þeirra voru frá börnum yngri en 18 ára. 19 þeirra voru frá börnum á aldrinum 10 til 12 ára. Flestir þeir sem falla fyrir eigin hendi á Grænlandi eru menn á aldrinum 20 til 24 ára.