Tímabundin lög um heimild til uppbyggingar varna renna sitt skeið um áramót

Lög sem veita dómsmálaráðherra tímabundnar heimildir til uppbyggingar varnargarða fyrir mikilvæga innviði á Reykjanesi renna sitt skeið í árslok. Það á einnig við um aðrar sambærilegar framkvæmdir í þágu almannavarna. Ný löggjöf er í undirbúningi. Ekki stendur til að framlengja gildistíma laganna, að því er segir á vef Stjórnarráðsins , heldur er ný löggjöf í undirbúningi. Þar er tekin hliðsjón af breyttum aðstæðum, reynslu og því að staðbundnum vörnum hefur þegar verið komið upp á Reykjanesskaga. Meðal annars hafa verið reistir varnargarðar fyrir Svartsengi og Grindavík. Þeir gegni lykilhlutverki við varnir samfélagsins og mikilvægra innviða. Án þeirra hefðu hrauntungur runnið inn í byggð og valdið verulegu tjóni á húsum, vegum og öðrum mikilvægum innviðum. Áformað er að starfshópur hlutaðeigandi ráðuneyta taki til starfa í upphafi árs um undirbúning að almennri löggjöf um fyrirbyggjandi ráðstafanir til verndar mikilvægum innviðum, nátengdri vinnu við ný heildarlög um almannavarnir. Þar yrði lögð aukin áhersla á þol innviða gegn áföllum. Löggjöfin yrði sambærileg þeirri sem gildir um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Stjórnvöld geta þó almennt gripið til aðgerða, þegar nauðsyn krefur, á grundvelli neyðarréttar meðan náttúruváratburðir standa yfir. Stjórnvöld fengu víðtækar heimildir til að grípa hratt til aðgerða í þágu almannavarna þegar lögin voru sett haustið 2023. Þá ríkti mikil óvissa um þróun jarðhræringanna á Reykjanesskaga og því voru meðal annars veittar undanþágur frá hefðbundinni málsmeðferð.