Er ekki allt í lagi heima hjá þér er heimildaleikhúsverk um fjórar manneskjur sem allar ólust upp hjá móður með alvarlegan geðsjúkdóm. Verkið verður flutt í útvarpinu á Rás 1 annan í jólum klukkan 17. Eva Rún Snorradóttir leikstjóri og handritshöfundur og Ragnar Ísleifur Bragason, einn fjögurra þátttakenda í verkinu, litu við í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sögðu frá. Hugmyndin er nokkurra ára gömul. „Mig hefur lengi langað að gera þetta verk,“ segir Eva. Áhrif reynslunnar á fólk á fullorðinsaldri Ein besta vinkona Evu tekur þátt í verkinu og hefur reynslu af efninu. Í samræðum vinkvennanna hafa þær rætt um það að það vantaði rými til að ræða hana. „Við fórum í að finna þrjá í viðbót með þessa reynslu,“ segir Eva og þar með fór boltinn að rúlla. Þátttakendur eru Eva Björk Kaaber, Helga Rakel Rafnsdóttir, Ragnar Ísleifur Bragason og Katla Rós Völudóttir. „Við þekkjumst öll sem tökum þátt svo þetta er unnið í mjög öruggu rými. Verkið fjallar um þessa reynslu og áhrif sem hún hefur á fólk á fullorðinsaldri.“ Mismunandi sögur eins og fólkið er margt Ragnar ólst upp með andlega veikri móður. Hann er fæddur árið 1977 og segir að á þeim tíma hafi ríkt mikið úrræðaleysi í málaflokknum og lítið verið að teygja hjálparhönd til aðstandenda eða ræða málin. „Maður var meira að reyna kannski að lækna fólkið sem var veikt. Þetta er furðuleg reynsla,“ segir hann. „Sögurnar eru mismunandi eins og fólkið er margt en þetta hefur mótað mig bæði á góðan og slæman hátt.“ Vona að fólk tengi og hugsi til þessara andlegu veiku mæðra Það þykir líklega fæstum auðvelt að ræða nokkuð svo persónulegt en Ragnar gerir það þó með glöðu geði. Hann hefur áður opnað sig um málið í leikverki með leikhópnum Kriðplei. Það eru tíu ár síðan og hann býr vel að reynslunni. „Þetta er eins konar meðferðarúrræði fyrir mig, ég vann úr ýmsum tilfinningum í gegnum það og það er eins með þetta. En þetta er mikilvægt finnst okkur Evu Rún, að nota þessa reynslu til góðs og vona mögulega að einhverjir aðilar í samfélaginu tengi við þetta, hugsi fallega til þessara andlegu veiku mæðra og allra sem eru andlega veikir.“ Man ekki til þess að hafa fengið aðstoð Ragnar segir að börn hafi ekki endilega vit á því að leita sér hjálpar og því sé mikilvægt að ungu fólki og börnum sé boðin aðstoð. „Mín upplifun á heilbrigðiskerfinu þegar ég var lítill er ekkert sem ég get munað eftir. Ég man ekki til þess að það hafi neinn komið til mín og minna bræðra og sagt: „Hvernig líður ykkur með þetta?“ En ég veit að það hefur breyst og það er frábært.“ Sögurnar eru ólíkar en ekki að öllu leyti. „Sameiginlegi flöturinn er að við höfum sameiginlegan lit í okkur og megum ræða okkar á milli. Við hittumst, við og Eva Rún, og hún skrásetti þetta og setti saman frábært handrit sem kemur brátt í loftið.“ Allt gert í sátt og kærleika Eva Rún segir að þetta sé viðkvæmt efni og hún velti lengi fyrir sér framsetningunni. Hópurinn hittist nokkrum sinnum og töluðu klukkutímum saman. Eva Rún tók samræðurnar upp og vann svo upp úr þeim. „Ég reyndi að draga fram bæði styrkleika og tengsl,“ segir hún. „Það er merkilegt hvernig fólk með þessa reynslu er með svipaðar afleiðingar. Það tengir á einhvern alveg sérstakan hátt sem er fallegt.“ Verkið er bæði átakanlegt en líka hjartnæmt og skoplegt. „Við reyndum að setja líka húmor inn. Þau eru öll fullorðin og búin að vinna mikið með þetta svo þetta er gert í sátt og kærleika.“ „Ég var ekki niðurbrotinn að gera þetta“ Ragnar segir að sín saga sé kannski minnst sorgleg og átakanleg af sögunum fjórum. „En hún er örugglega mjög sorgleg líka,“ bætir hann við. „Það var miserfitt fyrir fólk að taka þetta upp en ég var búinn að undirbúa mig vel. Mögulega hefur reynsla mín af því að hafa unnið með þetta áður í listrænu samhengi haft bara jákvæð áhrif á mig. Ég var ekki niðurbrotinn að gera þetta, mér fannst það mjög gott og ég held þetta hafi verið það fyrir okkur öll.“ Er ekki allt í lagi heima hjá þér er á dagskrá á Rás 1 annan í jólum klukkan 17:00.