Zelensky kynnti nýja 20 punkta friðaráætlun

Víglínur í Úkraínu verða frystar við núverandi staðsetningu samkvæmt nýjum drögum að 20 punkta friðaráætlun sem Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti hefur kynnt. Úkraínumenn og Bandaríkjamenn eru sáttir við skilmálana, að sögn Zelenskys, og drögin eru nú á borði stjórnvalda í Kreml. Vopnahlé myndi hefjast um leið og allir fallast á skilmálana. Lagt er til að víglínur verði frystar á núverandi staðsetningu í Donetsk, Luhansk, Zaporizhzhia og Kherson. Rússum verði gert að draga herlið sitt ú Dnipropetrovsk, Mykolaiv, Sumy og Kharkiv. Zelensky sagði samkomulagið fela í sér staðfestingu á fullveldi Úkraínu, algjöran frið og að bandamenn Úkraínu í Evrópu, Bandaríkjunum og NATÓ veiti ríkinu sterkar öryggistryggingar, í líkingu við fimmtu grein Atlantshafssáttmálans. Þær verði felldar úr gildi ráðist Úkraínumenn á Rússland en virkjaðar ráðist Rússar aftur á Úkraínu. Ráðist Rússar aftur inn í Úkraínu verði allar alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn þeim innleiddar að nýju. Stefnt verði að því að Úkraína fái tímabundinn aðgang að innri markaði Evrópu og gangi að lokum í Evrópusambandið. Stjórnvöld í Úkraínu haldi forsetakosningar eins fljótt og mögulegt er eftir að samkomulagið er undirritað. Gert er ráð fyrir að Rússar skuldbindi sig með formlegri stefnu að ráðast hvorki á Úkraínu né önnur Evrópuríki. Úkraína áskili sér þar að auki rétt til að krefjast bóta vegna afleiðinga stríðsins. Liðstyrkur úkraínska hersins verði 800 þúsund hermenn á friðartímum. Allir stríðsfangar, pólitískir fangar og gíslar, þar með talin börn, fái að snúa til heimalandsins. Samkomulaginu verði framfylgt af sérstöku friðarráði með Donald Trump Bandaríkjaforseta í fararbroddi. Úkraína, Evrópa, Nató, Rússland og Bandaríkin munu eiga þar fulltrúa. Sérfræðinefnd í mannúðarmálum leysi úr ýmsum útistandandi deilumálum.