Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni foreldra ungs skipverja sem drukknaði árið 2020 um skaðabótaskyldu ónafngreindrar útgerðar og TM trygginga hf. Vísi r greindi fyrst frá og segja útgerðina vera Brim hf. Skipverjinn, Axel Jósefsson Zarioh, var á nítjánda aldursári þegar hann féll frá borði í maí 2020 þegar skipið Erlingur KE 140 var á leið til hafnar í Vopnafirði. Umfangsmikil leit fór fram á sínum tíma en líkamsleifar hans fundust í apríl ári síðar. Málið byggir einkum á því að foreldrar Axels telji útgerðina hafa brugðist bæði eftirlits- og öryggisskyldu sinni. Öryggismyndavélar um borð hafi ekki verið virkar og skipverjar áttað sig seint á hvarfi Axels og tilkynnt það enn síðar til lögreglu. Þá hafi sonur þeirra ekki setið öryggisfræðslunámskeið. Fengu ekki að flytja mál sitt munnlega Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms Reykjavíkur í október þar sem fyrirtækin voru bæði sýknuð af skaðabótakröfu gagnvart foreldrunum. Landsréttur kvað upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og án munnlegs málflutnings. Foreldrar Axels byggðu málskotsbeiðni sína til Hæstaréttar á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það varði skaðabótaskyldu útgerðar og starfsmanna hennar og þá sönnunarstöðu sem aðstandendur sjómanna sem látast á sjó standi frammi fyrir. Málið hafi auk þess verulega almenna þýðingu á sviði einkamálaréttarfars í ljósi annmarka á málsmeðferð Landsréttar. Leyfisbeiðendur hafi hvorki fengið að flytja mál sitt munnlega né leiða nánar tilgreind vitni fyrir réttinn. Af sömu ástæðu sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi til. Kunna að vera annmarkar á málsmeðferð Landsréttar Dómur Landsréttar sé auk þess rangur að efni til að þeirra mati og er þar vísað til þess að ekki hafi verið lagt til grundvallar að sonur þeirra hafi látist í slysatburði þótt það hafi verið óumdeilt í málinu. Þá hafi ekki verið leyst úr öllum málsástæðum þeirra. Loks er á því byggt að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda enda varði það andlát sonar þeirra og miska. Hæstiréttur féllst á beiðni foreldranna og segir í ákvörðun dómsins að á málsmeðferð Landsréttar kunni að vera þeir annmarkar að rétt sé að heimila áfrýjun málsins.