Ósmann: „Þessi tilraun svissnesks innflytjanda lukkast afbragðsvel“

Gauti Kristmannsson skrifar: Hugsanlega mætti flokka það sem athyglisverða tilraun hjá innflytjanda, höfundi sem ekki er af íslensku bergi brotinn, heldur svissnesku, að skrifa bók upp úr því sem kallað hefur verið þjóðlegur fróðleikur hér á landi, eða öllu heldur heimildaskáldsögu um ævi Jóns Magnússonar ferjumanns í Skagafirði, sem kallaður var Ósmann á sínum tíma, hafi ég skilið það rétt. Höfundurinn hefur birt tvær skáldsögur sem flokkast til glæpasagna, en sögusviðið í þeim er Raufarhöfn sem er eins fjarri Reykjavík og unnt er og hafa þær slegið í gegn innan lands sem utan. Schmidt skrifar á móðurmáli sínu, þýsku, en bækurnar hafa einnig verið þýddar á íslensku af Bjarna Jónssyni eins og raunin er um þessa sem hér er undir. Einhver hafa talið það í mín eyru vera dálitla hótfyndni að sögurnar endi allar á orðhlutanum -mann, en það er vafalaust tilviljun, enda mun Ósmann hafa fengið sitt nafn á meðan hann lifði á síðari hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Hins vegar eru það kannski höfuðpersónurnar í sögunum sem eiga eitthvað sameiginlegt, ekki beinlínis, en þó það að vera „dálítið spes“ eins og höfundurinn sjálfur kallaði Ósmann á upplestri í Skáldu á dögunum. Það er eins og Schmidt dragist að svona persónum og honum tekst listilega að draga fram þessi sérkenni af fullri samlíðan fyrir lesendur, það er eitt af helstu afrekum höfundar að búa til svona heilsteypta en „dálítið spes“ karaktera. Sagan snýst sem sagt um ævi ferjumanns sem aldrei fór langt frá fæðingarstöðvunum, kom aldrei til Reykjavíkur, hvað þá útlanda. Hann er samt tengiliður ferðalanga við umheiminn, þeirra fjölmörgu sem flúðu harðærin á Íslandi til Norður-Ameríku, útlendinga á ferð um landið, eða einfaldlega sveitunga sem þurftu að flytja rollur til Sauðárkróks eða eitthvað annað. Lítur ekki út fyrir að vera mjög dramatískt efni, en annað kemur á daginn. Lífið sjálft er eitt drama eins og oft hefur verið bent á og það er skemmtilega undirbyggt í sögunni allri, þar sem Ósmann leikur sitt hlutverk sem við lesendur fylgjumst dálítið með eins og hann sé á sviði og kannski gerir hann sér sjálfur grein fyrir því þegar hann gengur með leikaradrauma í maganum. En líf Ósmanns er nær því að vera harmleikur en hitt, þótt reyndar nái hann einu hjónabandi í lífinu. Hamingjan er hins vegar endaslepp, en samt tekst honum að lifa mikið með mörgum vinum sem gjarna koma í byrgið hans til að sumbla með honum, en honum þótti víst sopinn góður. Bygging sögunnar og frásagnarháttur eru áhugaverð, sagan virðist í fyrstu vera fremur klassísk þriðju persónu frásögn með alvitrum sögumanni og er það kannski í stíl við söguefnið á nítjándu öld. En smám saman læðist sögumaðurinn inn, verður nærgöngulli og sjálfsmiðaðri ef svo mætti segja, hann verður persóna í sögunni og það er spennuþáttur í henni að komast að því hver hún er. Lengi vel hélt ég að þetta væri listamaðurinn sem á blómamyndina á kápunni, en svo reyndist ekki vera og verða lesendur sjálfir að komast að þessu. Sagan fer dálítið fram og aftur í tíma þótt hún sé samt sem áður að mestu krónólógísk, fer yfir ævi Ósmanns frá yngri árum til dauðadags, en í upphafi er farið aðeins fram og aftur og síðan reynist sögumaðurinn dularfulli ekki fullkomlega áreiðanlegur. Hver kafli er til dæmis með ártali og útdrætti úr annáli fyrir það ár og tiltekið er hversu gamall Ósmann er á því ári. Sögumaðurinn flakkar hins vegar töluvert hingað og þangað í tíma líkt og til að skýra aðeins fyrir lesendum viðbrögð Ósmanns við hinum ýmsu áföllum sem hann henda. Það er hins vegar vel dregið fram að þessi áföll eru ekkert ólík þeim sem hentu aðra Íslendinga á þessum tíma, fátæktin, sjúkdómarnir, barnadauðinn og ofdrykkjuslysin herja á alla og verður þessi tilvera ljóslifandi í fremur blátt áfram lýsingum á þessu öllu. Lífsbaráttan er hörð, en þó er Ósmann ekki í miklum vandræðum með að afla matar, mikill veiðimaður á fisk og ekki síst seli og er þeim veiðum lýst af töluverðri nákvæmni og verður áhugavert að lesa gagnrýni þýskra lesenda á þann þátt. En svona var lífið, fær maður á tilfinninguna, og það er kannski ekki síst fyrir orðfærið í íslensku þýðingunni sem er afbragðsvel unnin, höfundurinn er sjálfur stórhrifinn af henni og kveður íslensku gerðina vera í raun frumtextann, enda er bókin unnin upp úr íslenskum heimildum, áður ritaðri ævisögu og ýmsum heimildum öðrum. Þýðandinn, Bjarni Jónsson, hefur greinilega nýtt sér þessar heimildir við vinnu sína. Joachim er líka ófeiminn við að nýta sér textatengsl við íslenskar samtímabókmenntir, ferðalag til Segulfjarðar er ekki einu sinni vink til Hallgríms Helgasonar heldur beinlínis tilvitnun eins og höfundur getur um í eftirmála. Sú sigling eftir brennivíni minnir mig líka á aðra bátsferð í skáldsögunni Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Segja má að með þessu geri Joachim tilraun til að skrifa verk sitt inn í íslenskar samtímabókmenntir. Það gerði hann að vissu leyti þegar með Kalmann með vali sínu á sögusviði þar, en ég minnist þess einnig að hann gerði tilraunir í þýsku útgáfunni til að smygla íslensku orðfæri inn í þýskuna; eitt dæmið var beinþýðing á því sem við Íslendingar köllum „að vinna í fiski“ en slíkt gera fáir á þýsku held ég. En þannig verða þessi verk innflytjanda „inni á milli“ svo vísað sé til hugmynda Homis Bhabhas um „in-between“ stöðu innflytjenda, með báða fætur í báðum menningum, en kannski ekki alveg í hvorugri. Ég held reyndar að þetta sé svartsýni sem ekki standist, með tíð og tíma verða nýmælin að utan algjörlega hluti af menningunni og við erum að sjá um þessar mundir allmarga innflytjendur gera sig gildandi í íslenskum bókmenntum. Þetta fólk gerir þær sannarlega fjölbreyttari og litríkari, það bætir við nýrri vídd í tjáningu á íslensku. Þannig má vel halda því fram að þessi tilraun svissnesks innflytjanda hafi lukkast afbragðsvel og við Íslendingar getum verið þakklátir fyrir þessa nýju sýn á okkar eigin þjóðlega fróðleik. Gauti Kristmannsson, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, rýnir í Ósmann eftir Joachim B. Schmidt. Gauti Kristmannsson flutti pistil sinn í Víðsjá sem finna má hér í spilara RÚV. Hann er prófessor í þýðingafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um samtímabókmenntir í Víðsjá síðustu tvo áratugi.