Ákærður ásamt fimm öðrum fyrir ítrekuð brot gegn eiginkonu sinni

Fyrrverandi bæjarfulltrúi í breska bænum Swindon hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot á árunum 2010 til 2023 gegn þáverandi eiginkonu sinni. Fimm aðrir menn eru einnig ákærðir fyrir að brjóta gegn henni og lögreglan segist eiga eftir að bera kennsl á einn til viðbótar í tengslum við málið. Philip Young er meðal annars sakaður um að hafa byrlað Joanne Young og nauðgað henni. Lögreglan segir Joanne Young hafa ákveðið að stíga fram undir nafni. Málinu hefur í breskum miðlum verið líkt við mál Gisele Pelicot í Frakklandi. Henni var nauðgað af tugum manna meðan hún var undir áhrifum lyfja sem eiginmaður hennar hafði gefið henni. Dominique Pelicot var dæmdur í 20 ára fangelsi og fimmtíu aðrir fengu fangelsisdóma fyrir að nauðga Gisele. Philip Young var bæjarfulltrúi í Swindon frá 2007 til 2010. Hann er ákærður fyrir 56 kynferðisbrot, þar á meðal nauðgun og vörslu barnaníðsefnis. Hann tók ekki afstöðu til ákæruefnanna þegar hann var dreginn fyrir dóm í byrjun viku. Philip er í gæsluvarðhaldi en hinir mennirnir eru frjálsir ferða sinna. Þeir verða næst dregnir fyrir dómara 23. janúar. Þrír þeirra eru ákærðir fyrir nauðgun og tveir fyrir önnur kynferðisbrot gegn konunni. Tveir þeirra sem eru ákærðir fyrir nauðgun neituðu sök í dómssal en hinir hafa ekki tekið afstöðu til ákæruefnanna.