Nasry Asfura, frambjóðandi hægrisinnaða Þjóðarflokksins, var lýstur sigurvegari forsetakosninganna í Hondúras af yfirkjörstjórn landsins á aðfangadag. Samkvæmt niðurstöðum kjörstjórnar vann Asfura nauman sigur á keppinauti sínum, Salvador Nasralla úr Frjálslynda flokknum. Liðnar eru meira en þrjár vikur síðan kosningarnar fóru fram og mikið hefur verið um ásakanir um kosningasvindl. Nasralla hafði farið fram á heildarendurtalningu atkvæða en ekki haft erindi sem erfiði. Héctor Corrales, framkvæmdastjóri rannsóknarstofnunarinnar NODO, sem vann fyrir kosningaeftirlit á vegum Evrópusambandsins, sagðist hins vegar ekki hafa séð vísbendingar um útbreitt kosningasvindl. Bandaríkin óskuðu Nasfura til hamingju með sigurinn aðeins fáeinum mínútum eftir tilkynningu yfirkjörstjórnarinnar. „Við hlökkum til að vinna með væntanlegri stjórn hans til að efla tvíhliða og svæðisbundið öryggissamstarf okkar, binda enda á ólöglegan aðflutning fólks til Bandaríkjanna og styrkja efnahagslegt samband ríkjanna okkar tveggja,“ sagði Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna í yfirlýsingu um sigur Asfura. Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði lýst yfir stuðningi við Nasfura í kosningunum og hafði hótað að skera niður þróunaraðstoð til Hondúras nema hann ynni. Nasfura hafði varið töluverðum tíma í Washington á meðan á kosningabaráttunni stóð til að rækta samband sitt við stjórn Trumps. Stuttu fyrir kosningarnar náðaði Trump hondúrska fyrrum forsetann Juan Orlando Hernández, flokksbróður Nasfura, sem hafði verið dæmdur í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að stýra kókaínsmygli til landsins í valdatíð sinni. Hernández hélt því fram að stjórn Joe Biden fyrrum forseta hefði beitt sér sérstaklega gegn honum vegna íhaldssamra stefnumála hans.