Alsírska þingið samþykkti einróma frumvarp á miðvikudaginn þar sem nýlendustjórn Frakklands yfir landinu var lýst sem glæpsamlegri og þess var krafist að Frakkland biðji Alsír afsökunar og greiði landinu skaðabætur. Í frumvarpinu kemur fram að Frakkland beri lagalega ábyrgð á gerðum nýlendustjórnar sinnar í Alsír og harmleikjunum sem hún olli. Bent er á kjarnorkutilraunir, aftökur án dóms og laga, líkamlegar og sálrænar pyntingar og kerfisbundið arðrán á auðlindum landsins sem dæmi um glæpi nýlendustjórnarinnar. Þá kemur fram að „fullar og sanngjarnar endurbætur [séu] óumdeilanlegur réttur alsírska ríkisins og þjóðarinnar“. Alsír var undir stjórn Frakklands frá 1830 til 1962 og sá tími einkenndist af fjöldamorðum og nauðungarflutningum á innfæddum. Alsíringar háðu sjálfstæðisstríð gegn Frökkum frá 1954 til 1962 og miða við að ein og hálf milljón manna hafi farist í stríðinu. Franskir sagnfræðingar miða við að 500.000 manns hafi farist, þar af 400.000 Alsíringar. Auk Frakka fordæma lögin svonefnda harka, en það voru Alsíringar sem börðust með franska hernum í Alsírstríðinu, og skilgreina þá sem landráðamenn. Samkvæmt lögunum getur það varðað allt að tíu ára fangelsi að upphefja eða afsaka frönsku nýlendustjórnina. Ibrahim Boughali, forseti alsírska þingsins, sagði ríkisfjölmiðlinum APS að frumvarpið „sendi skýr skilaboð, bæði innanlands og utan, um að þjóðarminning Alsír verði hvorki þurrkuð út né verði samið um hana“. Emmanuel Macron forseti Frakklands hefur áður talað um nýlendustjórn Frakka í Alsír sem „glæp gegn mannúð“ en hvorki hann né forverar hans hafa beinlínis beðist afsökunar á henni. Franska utanríkisráðuneytið brást við nýju lögunum síðar um daginn og sagði þau „bersýnilega fjandsamlegt framtak, bæði gagnvart viðleitninni til að hefja aftur viðræður milli Frakklands og Alsír og gagnvart yfirveguðu starfi um minningamál“. Lögin eru ekki bindandi gagnvart Frakklandi en eru talin hafa táknrænt gildi. Samskipti Alsír og Frakklands nú eru með því versta síðan Alsír hlaut sjálfstæði. Alsíringar urðu æfir í fyrra þegar Frakkar viðurkenndu fullveldi Marokkó yfir Vestur-Sahara og Frakkar hafa ítrekað gagnrýnt Alsír fyrir að neita að taka við alsírskum ríkisborgurum sem stendur til að vísa frá Frakklandi.