Hitastig mældist 19,8°C á Seyðisfirði á aðfangadag. Með þessum hita er fallið Íslandsmet í hita í desembermánuði. Einnig mældist hiti 19,7°C að Bakkagerði á Borgarfirði eystra. Fyrra met var sett 2. desember 2019 þegar hiti mældist 19,7°C í Kvískerjum í Öræfum. Þar sem aðeins munar 0,1 gráðu gæti þurft nánari skoðun til að staðfesta að desembermetið sé fallið. „Þetta eru lygileg hlýindi,“ skrifaði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í færslu á Facebook-síðu sinni. „Önnur stöð á Seyðisfirði, norðan við fjarðarbotninn í Vestdal hefur fylgt hinni lengst af í kvöld og mælt hæst 19,4°C. Það er engin augljós ástæða til þess að rengja þessar mælingar.“ „En jólanóttin er enn ung eins og sagt er, og ekki útlilokað að hitinn gæti átt eftir að fara enn hærra fyrir austan í þessu mjög svo hlýja lofti sem nú flæðir yfir landið.“ Birgir Örn Höskuldsson, vaktaveðurfræðingur hjá Veðurstofu, segir skilyrði fyrir hitametinu hafa skapast þar sem hlýtt loft sé yfir landinu og nógu hvasst. Þegar loft er hlýtt og mikill vindur geti myndast hnúkaþeyr við fjöll og þá hlýni loft í niðurstreymi. „Það eru í svona aðstæðum sem svona mánaðarmet eru yfirleitt sett,“ sagði Birgir við fréttastofu RÚV. Birgir benti á að þetta sé loft af mjög suðrænum uppruna. Búast megi við hlýindum á jóladag en ekki jafnmiklum og á aðfangadag.