Stéphane Séjourné, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í málefnum innri markaðar sambandsins, gagnrýndi refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn embættismönnum ESB á samfélagsmiðlum á miðvikudag. Hann hét því að engar refsiaðgerðir myndu koma í veg fyrir að hann ynni vinnuna sína. „Forveri minn @ThierryBreton vann samkvæmt almennum evrópskum hagsmunum, í trausti umboðsins sem kjósendur veittu árið 2019,“ skrifaði Séjourné á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter). „Engin refsiaðgerð þaggar niður í fullveldi evrópsku þjóðanna. Fullkomin samstaða með honum og öllum Evrópumönnum sem verða fyrir áhrifum.“ Séjourné skrifaði þetta einum degi eftir að bandarísk stjórnvöld frystu eignir forvera hans, Thierry Breton, og bönnuðu honum ásamt fjórum öðrum embættismönnum ESB að koma til Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn kölluðu Breton „öfgafullan andófsmann“ og sökuðu hann um að reyna að þvinga bandaríska samfélagsmiðla til að ritskoða skoðanir sem séu honum óþóknanlegar. Breton var aðalmaðurinn á bak við lög ESB um stafræna þjónustu, sem setja ýmsar reglur um birtingu efnis á samfélagsmiðlum og ábyrgð miðlanna á efninu sem birt er á þeirra vettvangi. Samfélagsmiðillinn X var sektaður um 120 milljónir evra á grundvelli laganna fyrr í mánuðinum, sem vakti harða gagnrýni bandarískra ráðamanna. Emmanuel Macron Frakklandsforseti kom Breton einnig til varnar. „Ég er nýbúinn að ræða við @ThierryBreton og þakkaði honum fyrir mikið framlag í þjónustu við Evrópu,“ skrifaði hann á X. „Við stöndum keik gagnvart þrýstingi og munum vernda Evrópubúa.“ Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók í sama streng. „Málfrelsi er burðarstólpi okkar öfluga og líflega evrópska lýðræðis,“ skrifaði hún á X. „Við erum stolt af því. Við munum vernda það.“