Mjófirðingar reiða sig á ferjusiglingar fyrir jólin: „Við birgjum okkur upp, það er bara svoleiðis“

Átta mánuði á ári siglir flóabáturinn Björgvin tvisvar í viku með farþega á milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar og með honum póstur, vistir, tæki og tól. Mjófirðingar þurfa því snemma að huga að öllu fyrir jólin og er lítið við því að gera ef eitthvað gleymist í innkaupunum. „Það er náttúrulega bara allt frá pillunum sem eru í apótekinu og mjólkinni og sexhjólinu, raflínustaurunum, rafstöðina og allt þar á milli,“ segir Sævar Egilsson, skipstjóri á ferjunni. Felur líka í sér ákveðinn sparnað Sigfús Mar Vilhjálmsson, íbúi í Mjóafirði, sér ekki bara ókosti í takmörkuðum samgöngum. „Það er mjög gott að hafa þetta svona á veturna, því þá spörum við svo mikið. Þá þarf ekki að fara í kaupstað og velja sér eitthvað, maður bara gerir það heima og ekkert mál.“ Hann segir lítið við því að gera ef eitthvað gleymist í innkaupunum. „Við birgjum okkur bara upp. Það er bara svoleiðis, við erum vön þessu. Þannig er þetta ekki svo mikið mál.“ Það geti þó tekið örlítinn tíma að venjast, sé fólk ekki vant þessu frá upphafi. Þeir sem eru ekki vanir þessu, hjálpi þeim allir heilagir. Þeir þurfa allavega einn vetur til þess að venjast. Þrátt fyrir að vera löngu orðnir vanir núverandi samgöngum eru Mjófirðingar spenntir fyrir nýjum göngum og hlakka til að sjá þau verða að veruleika. „Þetta er svo mikil breyting til hins betra, bara að öllu leyti. Ekki síst samfélagslegu áhrifin eru alveg gífurleg. Það get ég alveg hreint fullvissað alla sem vilja hlusta á mig,“ segir Sigfús. Íbúi í Mjóafirði segir það venjast með tímanum að búa við takmarkaðar samgöngur. Þar sé ekki í boði að skreppa út í búð eftir því sem gleymdist eða skutlast með pakkana í póst korteri fyrir jól.