Yfirvöld í Tyrklandi segjast hafa komið í veg fyrir hryðjuverkaárásir um áramótin eftir að hafa handtekið 115 meinta hryðjuverkamenn í Istanbúl. Mennirnir eru sagðir tilheyra hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki (IS). Skotvopn, skotfæri og skipulagsgögn fundust í 124 húsleitum, að sögn yfirvalda. Þau segja mennina hafa áformað hryðjuverkaárásir á áramótasamkomur víðs vegar í Tyrklandi. Lögreglan er með 115 menn í haldi en segist leita 22 til viðbótar. Saksóknarar segja þá grunuðu hafa verið í tengslum við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna utan Tyrklands. Tveir dagar eru síðan tyrkneska leyniþjónustan gerði rassíu í tengslum við IS við landamæri Afganistan og Pakistan. Tyrki sem sagður er vera hátt settur liðsmaður vængs samtakanna á þeim slóðum var handtekinn og sakaður um að skipuleggja árás á almenna borgara.