Áskoranir ungs fólks miklar en framtíðin björt

Áskoranir barna og ungs fólks eru margvíslegar og þau þurfa skilning og stuðning samfélagsins, að mati Guðrúnar Karls Helgudóttur biskups. Í prédikun hennar í Dómkirkjunni í dag fjallaði hún um stöðu barna. Börn og ungt fólk fái fréttir af stríði og óróleika og öfga í stjórnmálum víða um heim. Þau þurfi stöðugt að greina á milli sannleika og tilbúnings á samfélagsmiðlum, sem verði sífellt erfiðara. „Unga fólkið þarf stöðugt að greina á milli þess sem er raunverulegt og satt og því sem er tilbúningur og verða því mögulega færari í því en við sem eldri eru. Já, og heimurinn þeirra er stór því þau fylgjast ekki einungis með íslenskum fjölmiðlum heldur efni frá ólíkum heimshornum.“ Unga fólkið getur svo margt og er með hjartað á réttum stað, sagði Guðrún Karls Helgudóttir biskup í jólaprédikun sinni. Hún vill að börn og ungt fólk mæti meiri skilningi og umburðarlyndi innan samfélagsins. Draga þurfi úr neikvæðni í umræðu um málefni barna, sem vilji að samfélagið taki betur á kvíða og andlegum veikindum, styðji við réttindi hinsegin fólks og þar eigi fullorðna fólkið að ganga undan með góðu fordæmi. „Ég hef ekki áhyggjur af framtíðinni er þetta unga fólk tekur við. Þau kunna og geta svo margt og eru með hjartað á réttum stað. Já, þau eru svo miklu klárari og réttsýnni en við höfum tilhneigingu til að halda. Það er síðan hlutverk okkar sem eldri erum að styðja þau þar sem eitthvað skortir, kenna þeim seiglu og úthald en einnig að hlusta á þau og læra af þeim þá þekkingu sem þau hafa að miðla til okkar.“