Jólakúlur, greni og piparkökukallar settu svip sinn á bakaríið Bake My Day á Amager í Kaupmannahöfn í aðdraganda jóla. Þar hefur mikið verið lagt upp úr jólaskreytingum síðustu ár að sögn Ynju Mistar Aradóttur, sem stofnaði bakaríið ásamt móður sinni. Rúmlega tuttugu manns starfa hjá Bake My Day sem opnaði sitt annað útibú í fyrra. Það er kærasti Ynju, Aziz Nabiyev, sem er helsta sprautan í skreytingunum. Hann kemur frá Aserbaísjan og var ekki vanur því að halda upp jól áður en hann flutti til Danmerkur. Ynja segir hann vera orðinn mikið jólabarn og elski að skreyta. „Þannig að það verður oft svolítið mikið skraut hérna hjá okkur,“ segir Ynja. Kakan úr frauðplasti en allt skrautið er úr sykri Miðpunktur athyglinnar er stór kaka sem tekur á sig mynd leiksviðs. „Þetta er ein svolítið stór kaka sem er gerð úr frauðplasti, þannig að þetta er ekki alvöru kaka að innan. En allt skrautið á henni er alvöru, sem sagt gert úr sykri.“ Útstillingin er innblásin af balletti Tsjækofskís um hnotubrjótinn en Aziz ólst upp við að horfa á Hnotubrjótinn á áramótum. Bakaríið leggur sitt lóð á vogarskálarnar til að skapa jólastemningu víðar í dönsku höfuðborginni. „Við höfum líka verið beðin um að gera alls konar fyrir önnur fyrirtæki. Til dæmis kökur og piparkökuhús sem önnur fyrirtæki nota sem útstillingu hjá sér,“ segir Ynja. Rataði í auglýsingu danska ríkisútvarpsins Útstillingin hefur vakið mikla athygli að sögn Ynju og hún rataði í auglýsingu hjá nágranna bakarísins í DR Byen, sjálfu danska ríkisútvarpinu, DR. „Þetta hefur fengið svolítið mikla athygli á Instagram hjá okkur, þannig að fólki finnst þetta flott,“ segir Ynja Mist.