Lækkandi kókaínverð hefur orðið til þess að smyglarar þurfa að leita hagkvæmari leiða en áður. Kafbátar sem áður voru notaðir til að flytja kókaín aðeins aðra leið, frá Ameríku til Evrópu, þurfa nú að endast lengur og fá eldsneytisáfyllingu á hafi áður en haldið er aftur heim. Sérútbúnir kafbátar hafa verið notaðir í Mið- og Suður-Amríku til að smygla fíkniefnum síðan á níunda áratugnum. Hins vegar er ekki vitað til þess að þeir hafi verið notaðir í Evrópu fyrr en eftir aldamót. Árið 2006 fannst í fyrsta sinn kafbátur af þessari gerð undan ströndum Spánar og síðan hafa spænsk yfirvöld séð eða lagt hald á tíu til viðbótar. Þau telja þá hins vegar vera miklu fleiri og að töluverður fjöldi liggi á hafsbotni, ekki síst í kringum Kanaríeyjar. Almennt hefur fyrirkomulagið verið að áhöfn siglir kafbáti þvert yfir Atlantshafið þar sem honum er sökkt eftir að hafa verið affermdur. Verð á kókaíni var lengi vel nógu hátt að þetta borgaði sig vegna þess hve ódýrir kafbátarnir eru í smíðum. Eldsneytirpallar á hafi Aukin framleiðsla og tilheyrandi framboðsaukning á kókaíni síðustu ár hefur leitt til þess að heildsöluverð hefur lækkað um helming á örfáum árum. Það er því ekki lengur hagkvæmt að nota kafbátana í aðeins eina ferð og endurnýting þeirra felur í sér nýjar áskoranir. Þeir þurfa til að mynda að fylla á eldsneytisbirgðir áður en haldið er til baka. Spænska lögreglan segir breska miðlinum Guardian að smyglarar hafi til að mynda leyst það vandamál með eldsneytisáfyllingarpöllum á hafi. Ódýr smíði þýðir að bátarnir þola gjarnan ekki endurteknar ferðir þvert yfir Atlantshafið. Smyglkafbátur sökk undan strönd Portúgal í nóvember eftir að þarlend yfirvöld lögðu hald á hann. Hann þótti of hrörlegur til að hægt væri að draga hann í höfn. Fjögurra manna áhöfn var um borð og rúmlega 1,7 tonn af kókaíni. Yfirvöld sögðu að aðstæður um borð hefðu verið áhöfninni erfiðar. Þungt loft, hátt hitastig og öldugangur einkenndi oft þessi ferðalög, sem séu gjarnan tveggja til þriggja vikna löng.