„Ef við gefum ekki séns þá kemur þetta aldrei“

Oksana Shabatura og Svetlana Puhkova kynntust á Íslandi og það er ýmislegt sem sameinar þær, þar á meðal uppruni og löngun til þess auðvelda þeim sem hingað flytja að taka þátt í íslensku samfélagi. Þær eru sammála um að tungumál sé eitt af því sem sameinar þjóðir. Íslenskan hefur opnað þeim dyr inn í íslenskt samfélag og þær segja að allir geti gert betur í að opna þessar dyr fyrir fleirum sem hingað flytja. Yfir fjögur þúsund Úkraínumenn búa á Íslandi og eru næstfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi á eftir Pólverjum. Oksana og Svetlana eru viðmælendur í þættinum Íslenskan opnar dyr sem var á dagskrá Rásar 1. Oksana var þrítug þegar hún flutti hingað 2004 og ástæðan var einföld, hörð lífsbarátta í heimalandinu, Úkraínu. Hún er kennari að mennt og starfaði í leik- og grunnskólum í Reykjavík. Núna er hún úkraínskumælandi brúarsmiður hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar í deild sem nefnist miðja máls og læsis. Reynst henni sem önnur móðir Svetlana kom hingað til lands í október 2022 eftir allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu og býr í Borgarnesi. Hún bjó fyrstu mánuðina á Bifröst og hóf íslenskunámið þar. Eftir að hafa kynnst Guðríði Pétursdóttur, kennara á eftirlaunum, í sundlauginni í Borgarnesi flutti hún á heimili Guðríðar og bjó hjá henni í tíu mánuði. Guðríður kenndi henni íslensku og hefur allt frá þeirra fyrstu fundum verið Svetlönu sem önnur móðir. Svetlana var grunnskólakennari í Úkraínu í 27 ár en vinnur í dag með fötluðum í Borgarnesi ásamt því að kenna Úkraínumönnum íslensku hjá Mími. Hún er líka í prjónaklúbbi í heimabænum og syngur í kirkjukór Borgarneskirkju. Kom til Íslands í nám Oksana starfaði í grunnskóla í Úkraínu áður en hún kom til Íslands. Laun eru mun lægri þar en á Íslandi og hún hafði ekki möguleika á að eignast íbúð. Jafnframt langaði hana að mennta sig frekar og fá réttindi til að kenna í framhaldsskólum. Oksana og vinkona hennar fundu upplýsingar um að Háskóli Íslands héldi úti íslenskunámi fyrir úlendinga þar sem hægt væri að vinna með námi ólíkt því sem var í Evrópusambandsríkjunum þar sem Úkraína er ekki í ESB. Þess vegna fóru þær til Íslands og hófu nám við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Oksana fékk atvinnuleyfi eftir nokkurra mánaða dvöl á Íslandi og vinnu við skúringar strax daginn eftir að atvinnuleyfið var gefið út. Nokkrum árum síðar fluttu eiginmaður hennar og dóttir hingað til hennar. Allir aðrir í fjölskyldunni búa í Úkraínu og vilja vera þar þrátt fyrir stríðið. Erfitt að fylgjast með fréttum Oksana segir erfitt að horfa á ástandið í heimalandinu úr fjarlægð en hún sé í góðu sambandi við fólkið sitt. „Ég reyni að styðja fjölskyldu mína eins og ég get. Það er svo erfitt að byrja daginn á hverjum degi á að opna og lesa fréttir. Maður veit að maður þarf að koma í vinnuna og vera í góðu skapi en þetta er stundum mjög erfitt,“ segir Oksana. Tæplega sex þúsund einstaklingar hafa fengið sameiginlega vernd á Íslandi vegna fjöldaflótta frá Úkraínu. Rúmlega 4.500 manns hafa mannúðarleyfi á þeim grundvelli í dag. Svetlana kom ein hingað til lands þar sem maðurinn hennar og sonur voru báðir í hernum. Eiginmaður hennar kom hingað fyrr á árinu en sonur þeirra, dóttir og barnabörn eru enn í Úkraínu. Stríðið hefur kostað fjölda mannslífa auk þess sem yfir fimm milljónir Úkraínubúa eru flóttamenn í öðrum ríkjum í Evrópu og víðar í heiminum. Oksana segir að það sé mikilvægt að Íslendingar aðstoði þá sem eru með erlendan bakgrunn á vinnumarkaði líkt og hennar yfirmenn hafa gert. „Þar sem ég fékk stuðning og ég fékk séns þá er ég alltaf að segja að það eigi að gefa útlendingum séns. Það eru svo margir sem koma með menntun og vilja vinna í skóla eða leikskóla en auðvitað vantar tungumálið. Þetta kemur en ef við gefum ekki séns þá kemur þetta aldrei,“ segir Oksana. Fékk stuðning frá vinnufélögum Hún var orðin deildarstjóri á leikskólanum Ösp, sem er í Breiðholti, eftir þriggja ára búsetu á Íslandi og þar fékk hún mikinn stuðning frá Fanný Heimisdóttur leikskólastjóra. Fanný var alltaf reiðubúin að aðstoða Oksönu. Þar á meðal við að skrifa bréf og fleira í tengslum við starfið. Þaðan fór Oksana á leikskólann Hraunborg sem er einnig í Breiðholti og var í nokkur ár. Þar sem Oksana er menntaður grunnskólakennari langaði hana að kenna á því skólastigi. Þegar hún sá auglýsingu um stöðu grunnskólakennara á yngsta stigi í Fellaskóla sótti hún um og fékk. Þar kenndi hún í sjö ár. „Mér leið rosalega vel þar og fékk gríðarlegan stuðning frá samstarfsfólki á yngsta stigi,“ segir Oksana en dóttir hennar var nemandi í Fellaskóla og þær bjuggu í hverfinu. Í dag er dóttir hennar uppkomin, hefur lokið framhaldsskóla- og háskólanámi. Allir voru boðnir og búnir að aðstoða Oksönu í skólanum og það hefur einmitt verið reynsla hennar af íslenska skólakerfinu, bæði leik- og grunnskóla. Fellaskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin í fyrra fyrir fjölmenningarlega og skapandi kennsluhætti þar sem byggt er á virðingu fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika. Í Fellaskóla eru töluð um 30 tungumál og litið svo á að fjölbreytileikinn auðgi skólastarfið. Í ár fór Fellaskóli með sigur af hólmi í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík og hlaut jafnframt Skrekkstunguna fyrir skapandi notkun á íslensku í keppninni. Enda oft í ræstingum þrátt fyrir menntun Sem brúarsmiður tengir Oksana saman menningarheima, ræðir bæði við foreldra og börn. Hún er ekki menntaður túlkur úr úkraínsku en vegna þess hversu fáir þeir eru þá aðstoðar hún fólk í viðtölum og fleira. Þótt börnin séu farin að tala íslensku er því alls ekki alltaf þannig farið með foreldrana. Oksana segir að þrátt fyrir það geti foreldrar gert ýmislegt til að styðja börn sín í náminu. Hún nefnir barnaefni í sjónvarpi, spila, syngja og fá bækur á bókasafninu. Síðast en ekki síst að styðja þau við heimalesturinn. Oksana segir að hún sjái það í starfi sínu hjá Mími að fólk nái smátt og smátt tökum á íslenskunni en menntað fólk endi því miður oft í ræstingastarfi eða í störfum þar sem nánast enginn Íslendingur er. Það þýðir að fólk fær ekki þjálfun í að tala íslensku. „Hvernig getur þú æft íslenskuna þegar þú ert annað hvort að vinna einn við ræstingar eða með fólki frá Úkraínu eða Póllandi,“ spyr Oksana og bætir við að bókleg íslenskukennsla geri mikið en alls ekki nóg. Það þurfi meiri þjálfun og þar skipti vinnustaðir miklu. „Ímyndum okkur konu sem fer á námskeið tvisvar í viku og síðan heim til sín. Hún hittir bara vinkonur frá sama landi, fer í sund og talar ekki neitt. Þá gerist ekki neitt,“ segir Oksana en fólk sem er að vinna og tekur íslenskunámskeið samhliða nái orðaforðanum miklu fyrr. Líka fólk sem kemur hingað með áfallastreitu og það geri engum gott að vera bara heima og hitta aðeins samlanda þar sem umræðuefnið er tengt heimalandinu og þeim hörmungum sem þar ríkja, segir Oksana. Staðan sé allt önnur hjá þeim sem drífa sig út á vinnumarkaðinn og kynnast öðrum, fara í ræktina og jafnvel prjónaklúbba. Það fólk blómstri hér á Íslandi. Óvissa um framhaldið Oksana segir að Ísland taki vel á móti fólki sem hingað leitar en það skipti miklu að halda fólki í virkni, ekki síst þeim sem koma úr erfiðum aðstæðum. Úkraínumenn búi við töluverða óvissu um framhaldið hér á landi. Dvalarleyfi þeirra er á öðrum forsendum en flestra annarra þar sem þeir fá vernd vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands. Verndin gildir í takmarkaðan tíma. Oksana hvetur stjórnvöld til að leggja áherslu á að koma fólki, til að mynda frá Úkraínu, á vinnumarkað og draga úr þeirri óvissu sem það stendur frammi fyrir. Oksana segist oft hafa hitt fólk sem kann ekkert í íslensku þrátt fyrir að hafa búið hér í þrjú ár eða meira og þegar hún spyr hvers vegna í ósköpunum það leggi sig ekki fram við að læra tungumálið eru svörin oft á þá leið að það taki því ekki þar sem það verði sent úr landi. Hún hefur áhyggjur af því að þetta hafi slæm áhrif á börn sem búa við þessar aðstæður. Þau fái ekki þann stuðning frá foreldrum sem börnum er nauðsynlegur. Óánægja foreldra komi fram sem vanlíðan hjá börnum og það skilar sér út í samfélagið. Ef foreldrar aftur á móti hvetja börn sín til að standa sig vel í námi og fara í framhaldsskóla, lesa bækur og tala íslensku líður börnunum betur í skólanum, þau sækja æfingar og eignast vini. „En ef við vitum að það er veggur framundan til hvers eigum við að vanda okkur. Það er tilgangslaust,“ segir Oksana að sé viðkvæðið hjá þeim sem eru óöruggir um framtíð sína. Margt líkt með stöðu íslensku og úkraínsku Ef stefnan væri þannig að þeir sem eru að læra eða eru að vinna og borga skatta hér fengju að vera áfram þá væri það mikill hvati til þess að læra íslensku, segir Oksana. Hún segir að íslenska hafi opnað henni dyr inn í íslenskt samfélag og það skipti máli að geta verið sjálfbjarga á þjóðtungu landsins, ekki ensku. Þetta sé mjög svipuð staða og var í Úkraínu þar sem rússneska tók yfir og úkraínska og úkraínskar hefðir voru nánast komnar í útrýmingarhættu líkt og hún sér að er að gerast smátt og smátt á Íslandi þar sem bandarískar hefðir eru að verða vinsælli en íslenskar. Hún nefnir sem dæmi hrekkjavöku og öskudag og Valentínusardaginn og þorrann. „Tungumál skipta rosalega miklu máli og eru eitt af einkennum þjóðar. Ef tungumálið fer þá fer þjóðin líka,“ segir Oksana sem hvetur Íslendinga til að halda fast í gamlar hefðir. Oksana segir jólin hafa verið öðruvísi í huga fólks í Úkraínu en Íslendinga þegar hún var að alast upp. Sovétríkin voru stofnuð eftir rússnesku byltinguna 1917 og í ársbyrjun 1919 réðust þau inn í Úkraínu. Á tímum Sovétríkjanna var Úkraínumönnum bannað að halda jól, skreyta jólatré, syngja jólalög. Trúarbrögð voru bönnuð sem og allar úkraínskar hefðir, trúarlegar og veraldlegar. Við fall Sovétríkjanna var aftur byrjað að halda jólin hátíðleg og þá í kringum þrettándann, það er sjötta eða sjöunda janúar samkvæmt júlíanska tímatalinu. Eftir að Oksana flutti til Íslands hélt hún jól bæði að hætti Íslendinga og Úkraínumanna en það breyttist eftir innrásina 2022 því þá ákváðu stjórnvöld í Úkraínu að færa jólin í fyrra horf og halda jól á sama tíma og Íslendingar. Snæfellsjökull í uppáhaldi Guðríður Pétursdóttir byrjaði að styðja útlendinga við að læra íslensku í gegnum Rauða krossinn. Svetlana segir að Guðríður hafi aðstoðað hana mikið við að læra íslensku og kynnast íslenskri menningu ásamt því að sýna henni íslenska náttúru. Þar á meðal Snæfellsnes. Eftirlætisorð Svetlönu á íslensku er einmitt Snæfellsjökull og hún hefur farið ófáar ferðir þangað. Þær Guðríður tala alltaf saman á íslensku og hún segist eiga Guðríði mikið að þakka. Guðríður segir að á þessum tíma hafi hún haft það í huga að bjóða úkraínskri konu að búa hjá sér þar sem hún var orðin ein í húsinu. „Ég hef þá skoðun að við séum öll eitt, alveg sama frá hvaða landi fólk er,“ segir Guðríður. Henni leist vel á þessa gáfuðu stúlku þegar þær hittust í búningsklefanum í sundlauginni í Borgarnesi og hún bauð Svetlönu heim. Svetlana bar boð Guðríðar undir íslenskumælandi starfskonu á Bifröst og sú bar Guðríði vel söguna þannig að það varð úr að Svetlana flutti til hennar skömmu fyrir jólin 2022. „Mitt lán var hvað Svetlana var dugleg og áhugasöm að læra íslensku og taka þátt í mínu lífi. Við fórum saman út að borða, við fórum saman í búð og það var bara eins og við ættum að vera saman svona fyrstu mánuðina,“ segir Guðríður og rifjar upp í þættinum Íslenskan opnar dyr fyrsta gamlárskvöldið þeirra saman í Borgarnesi þegar Svetlana var nýlega komin til Íslands. Vinnur með fötluðum Eftir tíu mánuði flutti Svetlana í íbúð í Borgarnesi en þá var hún farin að vinna í búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og þar sem hún starfar enn. Svetlana segir að allir hafi tekið henni vel. „Öll aðstoðuðu mig með því að leiðrétta íslenskuna mína og við að læra. Í vinnunni eru allir starfsmennirnir rosalega góðir og aðstoða mig mikið,“ segir Svetlana sem er ánægð með að taka þátt í prjónakvöldum og mæta á kóræfingar í kirkjunni. Að hlusta á 20-30 manneskjur syngja hafi bætt framburð hennar til muna og skilað því að hún á auðveldar með að tala íslenskuna. „Stundum tala Íslendingar mjög hratt og þá er erfitt að skilja,“ segir Svetlana og bætir við að þegar texti er sunginn verði allt miklu auðveldara. Guðríður kennir fleiri konum íslensku á heimili sínu í Borgarnesi. Hún segir mikilvægt að læra íslensku sem fyrst og til þess að verða hluti af íslensku samfélagi verði fólk að læra tungumálið. „Því fyrr sem það byrjar að læra íslenskuna því betra. Áður en fólkinu dettur í hug að þetta sé svo erfitt að það geti það ekki. Það hefur nú flestum tekist sem hafa komið til mín,“ segir Guðríður. Bað fólk um að hætta að tala ensku Svetlana segir að þegar hún var nýkomin til Íslands hafi flestir byrjað að tala við hana á ensku. „En ég stoppaði það alltaf,“ segir hún og segist hafa beðið fólk um að tala við hana á íslensku þar sem þau væru á Íslandi og hún að læra tungumálið. Aftur á móti bað hún fólk um að tala hægt og nota einföld orð svo hún skildi það betur. Þetta skilaði góðum árangri og allir hafi þegar breytt um takt, talað íslensku hægt og lágt og þannig hafi hún lært íslenskuna. Nauðsynlegt að útskýra menningarmun Oksana reynir að útskýra menningarmun milli Úkraínu og Íslands fyrir öllum samlöndum sínum frá Úkraínu. Eins er Mímir með íslenskunámskeið þar sem þetta er útskýrt fyrir fólki. Til að mynda að flokka rusl, fara í sturtu án klæða fyrir sund sem sumum finnst mjög óþægilegt og fleira. Sumum finnst þetta kannski barnalegt en hvernig á fólk að vita þetta ef enginn upplýsir það segir hún meðal annars í þættinum. Hægt er að hlusta á þáttinn Íslenskan opnar dyr í heild hér að neðan. Tvær úkraínskar konur sem eru búsettar á Íslandi komu hingað á ólíkum forsendum en þær eru sammála um að tungumál er eitt af því sem sameinar þjóðir. Rúmlega fjögur þúsund Úkraínumenn búa á Íslandi.