Um áttatíu einstaklingar eru í inniliggjandi meðferð á Vogi og meðferðarstöðinni Vík yfir jólin. Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir að reynt sé að láta fólki líða vel. Allur gangur sé á því hvernig því er tekið að vera í meðferð yfir hátíðarnar. „Þeir sem þurfa að koma á þessum tíma, þeir koma. Fyrir marga er þetta erfiður tími og sumum finnst jafnvel ekki verra að vera í meðferð á þessum tíma. Öðrum finnst það ekki skipta máli, af því það er það mikilvægt. Hjá sumum er ekki kostur á öðru því staðan er slæm. Svo það er allur gangur á því. En það eru margir sem vilja ekki koma um jólin, eðlilega, og koma fyrir jól eða eftir jól.“ Það geti verið huggun fyrir ástvini að vita af fólki í úrræðum SÁÁ yfir hátíðirnar. „Það er þannig fyrir margar fjölskyldur að þá er það mikil jólagjöf að einhver er hér í skjóli og ástvinir þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim þessa dagana. Þá er það oft jólagjöf fyrir aðstandendur þegar fólk kemur í meðferð og er hérna í skjóli, fær góðan mat og aðhlynningu þessa daga, og fólk áhyggjulaust á meðan.“ Lífsins vanagangur á rauðum dögum Valgerður segir að það sé almennt rólegt yfir starfseminni yfir hátíðirnar, en dagskrá og meðferð halda áfram alla daga. „Svo erum við bara að hafa hátíðlegt og góðan mat. Það er reynt að láta fólki líða vel þessa daga. En það eru innlagnir alla dagana hjá okkur. Fólk kemur og fer líka, þó þessir hátíðardagar séu. Þá er fólk að leggjast inn þessa daga líka. Lífið heldur svolítið áfram sinn vanagang þó það séu margir rauðir dagar,“ Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ.