Rússar stefna að því að opna að nýju leikhúsið í úkraínsku borginni Mariupol. Þeir hernumdu borgina snemma í innrásinni og var leikhúsið sprengt í mars 2022. Mariupol féll í hendur Rússa eftir tveggja mánaða umsátur á fyrstu mánuðum innrásarinnar. Sprengjum rigndi yfir borgina sem varð vart þekkjanleg í kjölfarið. Sameinuðu þjóðirnar áætla að allt að allt að 90% íbúðarhúsa hafi verið skemmd eða jöfnuð við jörðu í sprengjuárásum. Um 350 þúsund manns neyddust til að yfirgefa borgina. Að minnsta kosti 12 fórust þegar leikhúsið var sprengt 16. mars 2022. Mannréttindasamtök telja þá vera mun fleiri, því borgarbúar eru sagðir hafa leitað þar skjóls undan sprengjuárásum. Úkraínsk yfirvöld segja hundruð hafa látið lífið í árásinni. Rússar hafa haldið því fram að leikhúsið hafi verið sprengt að innan en sérfræðingar telja líklegustu skýringuna vera loftárás Rússa. Amnesty International hefur sagt að hún ætti að vera rannsökuð sem stríðsglæpur. Rússnesk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á uppbyggingu Mariupol og kynnt hana mikið. Úkraínumenn segja Rússa hins vegar stilla upp glansmynd af borg sem enn sé í rúst. Leikhúsið í Mariupol er hornsteinn þess kynningarefnis sem nú birtist frá Mariupol. Til stendur að opna dyr leikhússins í lok mánaðar og sýna þar sígild rússnesk og sovésk verk. „Leikhúsið verður endurreist ásamt Mariupol,“ segir í tilkynningu frá núverandi stjórnendum þess. Úkraínumenn sem störfuðu í leikhúsinu fyrir innrásina segja hins vegar að með því að opna leikhúsið séu Rússar að dansa á beinum þeirra sem létust.