Mette-Marit krónprinsessa Noregs segist hafa verið borin röngum sökum með gagnrýni sem hún hefur sætt í kjölfar fjölda ásakana á hendur syni hennar, Marius Borg Høiby. Mette-Marit ræddi ásakanirnar í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK . Marius hefur verið ákærður fyrir fjórar nauðganir, ofbeldi í nánu sambandi, líflátshótanir og fjölda annarra brota. Réttarhöldin yfir honum hefjast 3. febrúar og ekki er ljóst hvort krónprinsessan og krónprinsinn verði viðstödd. Mette-Marit hefur ekki tjáð sig opinberlega um ásakanir á hendur Marius hingað til. Hún hefur sætt mikilli gagnrýni og til að mynda verið sökuð um að reyna að hafa afskipti af handtökunni, hafa samband við þolendur og að hafa ekki sinnt Mariusi nægilega vel sem foreldri. „Það hefur verið þungbært að vera sökuð um svo alvarlega hluti, sem ég hef að sjálfsögðu ekki gert,“ segir Mette-Marit við NRK án þess að skýra hvaða ásakanir hún eigi við. Henni finnist hvað erfiðast að vera gagnrýnd fyrir hvernig hún hefur staðið sig sem foreldri. Hún segir gagnrýni um að hún og krónprinsinn hafi ekki tekið málinu alvarlega vera óréttláta. Þau hafi gert sitt allra besta og leitað aðstoðar. Aðspurð hvers vegna hún hafi lítið tjáð sig um málið segir hún að það þurfi fyrst að fá meðferð fyrir dómi.