Hátt í þrjú hundruð nemendur og kennarar í kaþólskum skóla í Níger-fylki í vesturhluta Nígeríu, sem var rænt í nóvember, eru komnir heim til fjölskyldna sinna á ný. Óttast var að 35 börn hefðu ekki skilað sér heim eftir að samið var um frelsun þeirra allra. Nú hafa yfirvöld staðfest að öll börn og kennarar séu komin til síns heima. Yfirvöld sögðu í nóvember að skólinn hefði ekki farið að opinberum fyrirmælum um að loka menntastofnunum vegna ábendinga um að ránsferðir hryðjuverkahópa væru yfirvofandi. 50 nemendum tókst að flýja skömmu eftir að þeim var rænt en yfirvöld sömdu um lausn allra þeirra sem eftir voru. Bandaríkjaforseti sagði kristið fólk undir árásum Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í kjölfar ránsins á nemendunum að kristið fólk sæti undir árásum sem jafngiltu þjóðarmorði. Hann hótaði hernaðaraðgerðum. Trump lét þessi orð falla í harðorðum pósti á Truth Social skömmu áður en nemendunum var rænt. Þá sagði hann jafnframt tilvist kristni og kristinna manna í Nígeríu stórlega ógnað af hálfu róttækra íslamista sem hefðu myrt þúsundir manna. Bola Tinubu, forseti Nígeríu, hefur hafnað því að kristið fólk eigi sérstaklega undir högg að sækja í Nígeríu og segir hryðjuverkamenn herja á alla óháð trúarbrögðum.