Bjartmar Leósson, þekktur sem hjólahvíslarinn, fékk á dögunum ansi rausnarlega jólagjöf frá manni fyrir „samfélagsþjónustu“. Bjartmar hefur á síðustu árum verið duglegur að leita uppi og endurheimta reiðhjól sem tekin hafa verið lausum höndum og koma þeim aftur til eigenda sinna. Verðmætin hlaupa á tugum milljóna, telur hjólahvíslarinn. Bjartmar segir í viðtali við fréttastofu að honum sé annt um að koma reiðhjólum aftur í hendur eigenda en að það hjálpi þó ekki við að komast að rót vandans, en hann segir fólk með fíknivanda í langflestum tilfellum standa að baki þjófnaðinum. Nauðsynlegt sé að yfirvöld stígi inn í og bjóði upp á betri úrræði fyrir fólk með fíknivanda, og sérstaklega þau sem eru yngri. Auglýsti 50 þúsund króna gjafabréf og fékk 100 þúsund krónur að gjöf Bjartmar fékk 50 þúsund króna gjafakort í Kringluna í jólagjöf frá vinnu sinni, sem hann tekur fram að hann hafi verið mjög þakklátur fyrir. Hann vildi þó nýta fjárhæðina víðar en bara í Kringlunni og ákvað að auglýsa gjafakortið til sölu á Facebook. Eftir að Bjartmar auglýsti gjafakortið hafði maður samband við hann, en þeir þekkjast lítillega fyrir. Maðurinn vill ekki að nafns síns sé getið. Hann bað Bjartmar um að senda sér reikningsupplýsingar, sem svaraði honum um hæl og spurði hvort hann hefði áhuga á að festa kaup á gjafakortinu. „Kann ekki á slíkt. Jólagjöf fyrir samfélagsþjónustu,“ sendi maðurinn til baka. Maðurinn millifærði síðan á Bjartmar 100 þúsund krónur og bað hann um að halda gjafakortinu fyrir sig. Bjartmar hefur fylgt þeim fyrirmælum en gjafakortið er ekki lengur falt. „Fyrst það datt inn svona væn summa þá er ég ekkert að stressa mig neitt voðalega mikið á því hvort ég eyði þessum pening í Kringlunni eða annars staðar,“ segir Bjartmar við fréttastofu. Þjófnaður merki um hve illa er haldið utan um fólk með fíknivanda Bjartmar hóf að leita uppi stolin reiðhjól árið 2019 en hann segist hafa komist í samband við ónefnda manninn í gegnum þetta starf sitt. „Þetta er maður sem ég kannast við, vissulega. Við sjáum báðir vel hvar rót vandans er í þessum málum og hefur að gera með það hvernig við vinnum með fólk með fíknivanda. Því betur sem við hlúum að þessu fólki því meira munum við sjá glæpatíðni minnka,“ segir Bjartmar. Hjólahvíslarinn segir að 99% þeirra sem hann fæst við þegar hann endurheimtir reiðhjól sé fólk sem glími við fíknivanda. „Þetta er oftar en ekki fólk sem kerfið hefur brugðist. Þetta er enn einn vitnisburðurinn um það hvað við erum að standa okkur illa hreint út sagt þegar kemur að því að hjálpa fólki sem er á þessum stað í lífinu.“ Útkoman af því sé meðal annars aukinn þjófnaður í íslensku samfélagi. „Ef við sinnum þessu fólki ekki, ef við grípum til dæmis ekki unga fólkið okkar sem er í vanda núna, þá mun það koma harkalega í bakið á okkur í formi meiri afbrota og annarra hörmunga.“ Bjartmar segir þetta í upphafi hafa snúist um að endurheimta reiðhjól og jafnvel bíla en að starfið snúist ekki um „þessa hluti“ fyrir honum. Hann sé vissulega að hjálpa fólki að finna þá en honum er ofarlega í huga að ráðast verði að rót vandans. „Það er endalaust hægt að hlaupa til og reyna að redda þessum málum. Eins og ef þú ert á báti sem lekur og hugsar – heyrðu, ég verð bara duglegur að ausa, þá verður þetta allt í lagi. Hversu lengi á ég alltaf að vera á ausunni? Af hverju fer ekki skipstjórinn bara í land og lætur laga þetta gat? Af hverju erum við ekki bara með alvöru meðferðarúrræði hérna og allt sem því tengist, tökum þetta föstum tökum og gerum þetta á þann hátt að þetta virkar?“